Gleðilegan þjóðhátíðardag kæru lesendur! Það er tilvalið að deila einni uppskrift að ljúffengum bollakökum í tilefni dagsins, í gærkvöldi kom yfir mig löngun í vanillubollakökur og að sjálfsögðu svaraði ég þeirri löngun 🙂 Það tekur enga stund að baka þessar og hráefnin eru ekki ýkja mörg og þess vegna átti ég sem betur fer allt til hér heima, ég hefði sjálfsagt ekki nennt að stökkva út í búð eftir einhverjum hráefnum svo það er alltaf plús þegar hráefnin eru ekki mörg. Ingibjörg Rósa og frænka hennar fengu að taka þátt í bakstrinum og þeim leiddist það ekki – ég sýndi uppskriftina skref fyrir skref í Insta – stories og fyrir áhugasama finnið þið mig á Instagram undir evalaufeykjaran. Ég reyni að vera dugleg að sýna ykkur uppskriftir þar af og til.
Hér kemur að minnsta kosti uppskriftin að þessum æðislegu kökum en uppskriftin er einnig að finna í kökubókinni minni, Kökugleði Evu.
Ég vona að þið eigið frábæran dag framundan.
Vanillubollakökur með fluffy smjörkremi
- 200 g smjör, við stofuhita
- 3 dl sykur
- 4 egg
- 5 dl hveiti
- 4 dl rjómi
- 2 tsk. lyftiduft
- 2 tsk. vanilla (helst extract)
Aðferð:
- Hitið ofninn í 180°C.
- Þeytið saman sykur og smjör þar til deigið er létt og fínt.
- Bætið eggjum saman við, einu í einu.
- Sigtið þurrefnin saman og bætið þeim því næst saman við deigið ásamt rjóma (það má líka nota mjólk eða létta jógúrt) og vanillu.
- Þeytið deigið mjög vel í 2 – 3 mínútur og munið að skafa meðfram hliðum í millitíðinni svo allt deigið blandist vel saman.
- Skiptið deiginu jafnt niður í bollakökuform og bakið við 180°c í 18 – 22 mínútur.
- Kælið kökurnar mjög vel áður en þið setjið á þær krem.
Fluffy vanillukrem
- 240 g smjör, við stofuhita
- 500 g flórsykur
- 150 g hvítt súkkulaði
- 1 msk rjómi (eða mjólk)
- 1 tsk vanilla (helst extract)
Aðferð:
- Þeytið smjör og flórsykur saman.
- Bræðið hvíta súkkulaðið yfir vatnsbaði og bætið þið varlega saman við smjör-og flórsykurinn.
- Þeytið í 2 – 3 mínútur og bætið síðan rjómanum og vanillu saman við, best er að þeyta kremið í 3 mínútur til viðbótar en þá verður kremið silkimjúkt og fluffy.
- Ef þið ætlið að setja matarlit þá setjið þið smá dropa af litnum rétt í lokin áður en þið smyrjið kreminu á kökurnar.
- Skreytið kökurnar að vild til dæmis með sykurperlum eða ferskum ávöxtum.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.