Bollakökur sem koma á óvart.
Vanillubollakökur eru klassískar og eiga alltaf vel við. Það er gott að bæta hindberjafyllingu í þessar kökur og í raun má nota hvaða ber sem er, fer allt eftir smekk hvers og eins. Fyllingin kemur skemmtilega á óvart þegar fólk tekur bita af kökunum.
Vanillubollakökur u.þ.b 18 – 20 stk.
250 g sykur
135 g smjör
2 egg
250 hveiti
1 1/2 tsk vanilla extract eða vanilludropar
1 tsk. lyftiduft
3 – 4 msk mjólk
Aðferð:
Hitið ofninn í 200°C. Hrærið smjör og sykur saman í hrærivél og bætið síðan eggjum saman við, fyrst öðru og svo hinu. Blandið hveiti og lyftidufti saman í annarri skál og sigtið blönduna 3 – 5 sinnum. Bætið hveitiblöndunni saman við smjörblönduna í smáum skömmtum ásamt mjólk og hrærið vanillu saman við í lokin. Skiptið deiginu í pappaform og bakið í 20 mín. Skerið lítið gat í miðjuna á hverri köku og takið svolítinn bút upp úr henni. Setjið um það bil 1/2 – 1 msk af fyllingu í hverja köku, magnið fer eftir því hversu stórt gat er gert í kökurnar. Látið kökurnar standa í 10 mín áður en kremið er sett á þær.
Hindberjafylling.
4 – 5 dl fersk hindber
2 dl vatn
1 tsk. kartöflumjöl
1 tsk. sítrónusafi
Setjið allt í lítinn pott, blandið vel saman og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Hrærið vel í á meðan, best er að blandan verði þykki og fín en þá má bæta meiri vatni saman við hana ef þið viljið hafa hana þynnri. Kælið fyllinguna áður en þið setjið þær í kökurnar.
Krem.
230 g smjör, við stofuhita
5 dl flórsykur
2 tsk vanilluextract eða dropar
2 msk mjólk
fersk hindber til skrauts
Hrærið smjör og flórsykur saman þar til smjörið er orðið mjúkt. Bætið mjólk smátt og smátt út í og hrærið vel saman við á milli. Bætið vanillu saman við í lokin. Kælið kremið í smástund ef það er of lint. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið því ofan á kökurnar. Skreytið kökurnar að vild en þær eru sérlega fallegar með ferskum hindberjum.
Ég bakaði þessar kökur fyrir babyshower í ágúst og birti uppskriftina að þeim í Gestgjafanum. Þær eru sérlega góðar að mínu mati og algjört augnyndi. Það er tilvalið á heldur gráum janúardegi að baka sætar og góðar bollakökur sem gefa lífinu lit.
Ég vona að þið eigið ljúfan dag framundan kæru vinir.
xxx
Eva Laufey Kjaran