Ég hef alltaf verið afskaplega hrifin af kökum og það er fátt sem gleður mig meira en fallegar og góðar kökur. Kökuást mín byrjaði mjög snemma og eina minningin sem ég á af ættarmóti sem var haldið fyrir mörgum árum eru kökurnar, ég setti mér það markmið að smakka hverja einustu köku sem var á borðinu. Fyrirkomulagið var þannig að hver fjölskylda kom með eina köku og það fannst mér reglulega spennandi. Þetta var mjög fjölmennt ættarmót en ég naut þess að smakka allar kökurnar, á meðan hin börnin léku sér þá var ég að vinna í því að ná settu markmiði. Síðasta kakan sem kom á borðið var kívíkaka í einskonar hlaupi, ég man það sérstaklega vegna þess að ég hef varla borðað kíví síðan þá.
Ég sá svo ótrúlega girnilega uppskrift um daginn að Twix bombu. Ég gat ekki staðist freistinguna og varð að prufa. Ein af mínum bestu vinkonum útskrifaðist um síðustu helgi og þá fannst mér kjörið tilefni til þess að baka þessa bombu. Twix bomban var svakalega góð og mæli innilega með að þið prufið þessa uppskrift kæru vinir og njótið.
Twix bomba
100 g smjör, við stofuhita
40 g kakó
2 dl vatn
220 g sykur
2 egg
175 g hveiti
1/2 tsk. matarsódi
2 eggjahvítur
80 g sykur
Fylling:
4 dl rjómi
2 tsk flórsykur
3 stk twix (60 g hvert)
Aðferð:
Hitið ofninn í 160°C. Setjið kakó í litla skál og hellið sjóðandi vatni yfir, hrærið vel saman. Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður létt og ljós, bætið eggjum út í, einu og einu í senn. Blandið súkkulaðblöndu, hveiti og matarsóda út í og hrærið vel saman við. Leggið súkkulaðiblönduna til hliðar í smá stund. Stífþeytið eggjahvítur, bætið sykrinum saman við smám saman.
Smyrjið tvö form (ég notaði 22 cm í þvermál) og skiptið súkkulaðideiginu á milli formana. Skiptið marensdeiginu ofan á og dreifið úr því. Bakið botnana í 35 – 40 mínútur, kælið þá vel áður en þið takið þá úr formunum.
Þeytið rjóma og bætið flórsykrinum saman við, skiptið honum á milli botnana og leggið þá saman. Setjið rjóma ofan á kökuna, saxið twix og dreifið yfir kökuna.
Ég vona að þið njótið vel kæru vinir.
xxx
Eva Laufey Kjaran