Tiramisú og bakaðir ávextir með vanilluís.

Tiramisú

Tiramísú er guðdómlegur ítalskur eftirréttur. Nafnið þýðir í raun „taktu mig upp“ og er þá verið að
vísa í að hann fer með okkur í hæstu hæðir, svo góður er hann. Þegar ég gæði mér á tiramisú fer
hugurinn með mig á lítinn sætan veitingastað í Bretlandi þar sem ég smakkaði réttinn í fyrsta sinn.
Það eru til margar útgáfur af tiramisú, þessi útgáfa er virkilega einföld.
 • 4 egg
 • 100 g sykur
 • 400 g mascarpone ostur
 • 2 msk Amarula líkjör (má sleppa)
 • 2 tsk vanillu extrakt
 • 4 dl þeyttur rjómi
 • 250 g kökufingur
 • (Lady Fingers)
 • 6-7 dl sterkt uppáhellt kaffi
 • kakó eftir þörfum

Stífþeytið egg og sykur saman þar til þykk froða myndast.
Blandið mascarpone ostinum saman við eggjablönduna og hrærið
vel. Bætið líkjörnum, vanillunni og rjómanum varlega saman við
með sleif. Leggið blönduna til hliðar í stutta stund á meðan þið
hugið að kökunum. Hellið upp á sterkt kaffi og setjið kaffið í
skál.Veltið kökufingrunum upp úr kaffinu og raðið þeim með
jöfnu millibilli í fallegt form, það er líka hægt að bera réttinn
fram í nokkrum glösum en þá gerið þið bara það sama og segir
hér á undan. Setjið helminginn af ostablöndunni ofan á kökufingurna,
stráið svolitlu kakói yfir og endurtakið leikinn þar til
hráefnið er búið. Í lokin er stráð vel af kakói yfir réttinn. Það þarf
að kæla þennan rétt í lágmark 4 klukkustundir áður en þið berið
hann fram, best finnst mér að geyma hann í kæli yfir nótt.

Ofnbakaðir ávextir með kókos og hvítu súkkulaði

Bakaðir ávextir með kókosog vanilluís. Þessi ofureinfaldi eftirréttur er einn sá allra besti. Hægt er að nota hvaða ávexti sem er, allt eftir smekk hvers og eins. 

Bakaðir ávextir

 • 3 bananar
 • 2 mangó
 • ½ ananas
 • 15 jarðarber
 • 1 askja/200 g bláber
 • 100 g vínber
 • 3 kíví
 • 180 g hvítt súkkulaði
 • 4 msk kókosmjöl
Skerið ávexti í bita og setjið í eldfast form. Saxið hvítt súkkulaði og dreifið yfir ávextina, sáldrið kókosmjöli yfir og skellið inn í 180°C heitan ofn. Bakið þar til ávextirnir verða ljósbrúnir. Berið fram með vanilluís.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *