Taco tuesday – Ljúffengar tortillaskálar

Þriðjudagar eru mexíkóskir á þessum bæ eins og ég hef sagt áður, þið sem fylgið mér á Instagram sáuð kannski þessa uppskrift í gær hjá mér? Þessar tortillaskálar með ljúffengri fyllingu slógu heldur betur í gegn og sú yngsta sem er ekki orðin tveggja ára elskaði þetta. Að þessu sinni notaði ég kalkúnahakk sem ég rakst á út í búð, ég hef ekki séð það fyrr og var mjög spennt að prófa að nota það. Hér er uppskriftin og ég vona að þið prófið, þetta var vægast sagt ljómandi gott!

Tortillaskálar

Uppskrift miðast við fjóra

 • 1 msk olía
 • 600 g kalkúnahakk
 • 1 laukur
 • 1/4 rautt chili
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 rauð paprika
 • 5 sveppir
 • Salt og pipar
 • 1 tsk paprika
 • 1 tsk rósmarín
 • 1 tsk kummin
 • 1 tsk þúsund og ein nótt kryddblanda (ég veit ekki hvort hún fáist í öllum verslunum en þið notið bara góða kryddblöndu í stað hennar ef hún er ekki lengur seld)
 • 1 krukka maukaðir tómatar
 • 2 msk salsasósa
 • 2 msk hreinn rjómaostur
 • 1/2 kjúklingateningur
 • Handfylli smátt saxaður kóríander
 • Tortillavefjur

Ofan á:

 • 150 g rifinn ostur
 • Sýrður rjómi
 • Lárpera
 • Kirsuberjatómatar
 • Vorlaukur
 • Kóríander

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Mótið tortillakökurnar með því að nota bollakökuform, þrýstið kökunum ofan í formið og mótið lítinn vasa. Setjið inn í ofn við 180°C í 15 mínútur eða þar til kökurnar eru gullinbrúnar.
 3. Hitið olíu á pönnu. Saxið niður lauk, hvítlauk og chili og steikið þar til mjúkt í gegn.
 4. Bætið kalkúnahakkinu út á pönnuna og kryddið með þeim kryddum sem talin eru upp hér að ofan.
 5. Skerið niður papriku, sveppi og kóríander. Bætið út á hakkblönduna og eldið þar til kalkúnahakkið er fulleldað.
 6. Bætið maukuðum tómötum, rjómaosti og salsasósu út á. Kryddið vel með salti og pipar og bætið hálfum kjúklingatening saman við.
 7. Leyfið hakkblöndunni að malla við vægan hita í tíu mínútur.
 8. Á meðan skerið þið niður lárperu, kóríander, kirsuberjatómata, vorlauk og blandið saman í skál. Kryddið með salti og hellið smá ólífuolíu yfir grænmetið.
 9. Þegar hakkblandan hefur mallað í tíu mínútur skiptið þið henni niður í tortillakökurnar og setjið rifinn ost yfir.
 10. Inn í ofn við 180°C í tíu mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og gullinbrúnn.

Berið fram með sýrðum rjóma, fersku salsa og enn meira af kóríander…jájá það fær enginn nóg af honum.

Súper gott og fljótlegt!

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum 🙂

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *