Safarík og silkimjúk nautalund er eitt af því betra sem ég veit um! Ég smakkaði bestu nautalund sem ég hef smakkað hjá Atla vini mínum fyrr á þessu ári en hann eldaði hana með sous vide eldunargræju en slík matreiðsla felur í sér að elda matinn á jöfnu hitastigi í vatni. Ég hef oft smakkað góða nautalund og tel mig alveg ágæta að elda slíka en þessi eldunaraðferð er skotheld og útkoman verður fullkomin – ég er að segja ykkur það, fullkomin!
Haddi átti afmæli í mars og við fengum fjölskylduna hans í mat og buðum upp á „surf and turf“ eða nautalund og humar. Ég hef alltaf verið svolítið stressuð að elda nautalund fyrir marga, þá verð ég stressuð um að ofelda steikina eða þá að hún sé ekki nógu vel elduð.. æ þið vitið, þessar stöðugu áhyggjur sem hellast stundum yfir mann þegar von er á gestum í mat. Þetta var þess vegna tilvalið tækifæri að prófa sous vide eldunargræju sem ég fékk í láni hjá vini okkar, en tækið sem ég prófaði er frá merkinu UNOLD og er að mínu mati frábært tæki (ekkert spons hér kæru vinir, bara alvöru lof!)
Eldunaraðferðin er svo einföld að það er lyginni líkast – það geta allir, já ALLIR eldað fullkomna steik með þessu tæki og ég hef aldrei eldað eins góða nautalund. Ég stillti tækið á 54°c og eldaði lundina í ca. 4 klst, en með því að elda hana á þennan hátt þá fer kjötið aldrei yfir hitastigið sem þú stillir á og verður þess vegna nákvæmlega eins og þú vilt hafa það. Svo þarf maður eingöngu að steikja það aðeins áður en það er borið fram til þess að brúna kjötið. VOILA!
Þið verðið, já verðið að prófa þetta kæru vinir 🙂
Surf and Turf
Nautalund ‘Sous Vide’
Fyrir 8 fullorðna og 2 börn
- 2 kg nautalund (ég miða við ca. 200 – 250 g á mann)
- Salt og pipar
- Smjör
Aðferð:
- Fyllið stóran pott af vatni, setjið sous vide tækið út í pottinn og stillið á þann hita sem þið viljið, í þessu tilfelli stillti ég hitann á 54°C.
- Skerið kjötið (ef þið eruð með stóra lund) í 2 bita og kryddið til með pipar, ég sleppti því að setja salt en það var mælt með því. Setjið kjötið í plastpoka sem opnast ekki t.d. IKEA pokarnir sem hægt er að renna fyrir og nota aftur og aftur. Það er líka hægt að kaupa sérstaka vél sem vakúmpakkar kjötinu og það á að vera besta leiðin en það er gott og blessað að setja þá í poka með góðu loki en passið að lofttæma pokana vel áður en þeim er lokað.
- Setjið pokana ofan í vatnið þegar það hefur náð þeim hita sem þið óskið og eldið í 4 klst.
- Þegar kjötið er tilbúið þá er gott að þerra það aðeins, krydda með salti og meiri pipar ef þið viljið og steikja upp úr smjöri í smá stund eða þar til kjötið er brúnað á öllum hliðum.
- Leyfið kjötinu að hvílast í 6 – 7 mínútur áður en þið skerið það í sneiðar.
- Gott er að steikja lauk og sveppi og bera fram með kjötinu.
Ofnbakaður hvítlaukshumar
- Humar ca. 3 stk á mann með kjötinu (ég fékk svo fallegan og flottan humar frá Norðanfisk sem ég notaði og hann var algjört sælgæti)
- 100 g smjör
- 1 msk söxuð steinselja
- 2 – 3 hvítlauksrif, pressuð
- salt og pipar
- rifinn börkur af sítrónu
Aðferð:
- Klippið humarinn upp eftir bakinu, hreinsið humarinn vel í köldu vatni og passið að svarta röndin fari alveg.
- Þerrið humarinn, leggið kjötið á humrinum upp á bakið á skelinni (sjáið mynd hér að ofan) og raðið humrinum á pappírsklædda ofnplötu.
- Bræðið smjör í potti, saxið steinselju og pressið hvítlauk og bætið út í. Penslið humarinn með hvítlaukssmjörinu, rífið niður sítrónubörk og sáldrið yfir ásamt því að krydda vel með salti og pipar.
- Grillið humarinn í ofni (220 – 230 °C ) í 2 – 3 mínútur. Berið strax fram og njótið!
Meðlæti var annars afar einfalt og gott, en ég útbjó Hasselback kartöflur og piparostasósu sem allir elska í fjölskyldunni, uppskriftin að kartöflunum og sósunni finnið þið hér.
Kjötið fær ekki alveg að njóta sín á þessari mynd – ég kenni birtunni um, haha. En þetta er semsagt nautalundið fullkomna á lauk- og sveppabeði.
Að sjálfsögðu eru súkkulaðikökur í boði á afmælisdaginn – mjög gott að enda máltíð á smá súkkulaði, eruð þið ekki sammála?
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefnin í þessar uppskriftir má finna í verslunum Hagkaups.