Sumarsæla á Akranesi.

 Akranes skartar sínu fegursta í dag, ég vaknaði snemma og ætlaði aldeilis að skrifa á fullu en gat ómögulega verið inni á meðan veðrið er svona gott. Ég fór því með Hadda í Kalla bakarí sem er frábært bakarí hér á Skaganum. Þegar þið komið upp á Skaga í sumar þá mæli ég með að þið farið í Kalla bakarí og fáið ykkur kringlu, kókómjólk og gamaldags kleinuhring. Ég hef fengið mér þessa þrennu frá því að ég var mjög lítið og það var algjör nauðsyn að nesta sig upp í Kalla bakarí áður en maður fer á Langasand. Ef þið hafið ekki komið upp á Skaga þá vitið þið kannski ekki af perlunni okkar, sem er Langisandur.
 Dásamleg strönd og svæðið í kring er frábært.  Aggapallur er í sérlegu uppáhaldi og ég tók nokkrar myndir áðan til þess að sýna ykkur þessa sælu sem er að finna á Skaganum. 
 Á Aggapalli er hægt að kaupa veitingar á sumrin, vöfflurnar með rjómanum eru í mínu uppáhaldi. 
 Sjáið þið þetta útsýni? Þarna beint á móti er Reykjavíkin. 
 Það er mikið og gott skjól á pallinum, tilvalið að koma hingað með vinum og njóta þess að sitja í sólinni. 
Það er meiriháttar lúxus að vera á Skaganum á svona dögum. Ég mæli nú með því að þið takið rúnt upp á Skaga í sumar, ekki nema 40 mínútur að keyra úr Reykjavík. Hér er glæsilegt tjaldsvæði, frábær golfvöllur (hef ég heyrt, ég hef ekki vit á golfi), Akrafjallið okkar fína, skógræktin okkar, góðir matsölustaðir, Langisandur, Aggapallur og svo mætti lengi telja. Svo er líka mikið fjör að kíkja á fótboltaleiki, ÍA ætlar að taka deildina með trompi í sumar. Sjáiði bara til! 
Njótið dagsins kæru vinir og kíkið fljótlega upp á Skaga í huggulegheitin. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

1 comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *