Amerískar pönnukökur hafa lengi verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér og í morgun ákvað ég að breyta aðeins uppskriftinni sem ég nota yfirleitt. Aðal breytingin er sú að ég bætti kakó út í deigið og smá kanil, nú eru þetta þess vegna súkkulaðipönnukökur. Þær eru algjört lostæti og sérstaklega með ristuðum pekanhnetum. Ég mæli með að þið prófið þessar einföldu og bragðgóðu pönnukökur.
Amerískar súkkulaðipönnukökur
- 5 dl Kornax hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- 2 msk kakó
- 1 tsk kanill
- 1 Brúnegg
- 2 dl ab mjólk
- 2 – 3 dl mjólk
- 1 msk sykur
- 1 tsk vanilla extract eða vanilludropar
- 2 msk brætt smjör
Aðferð:
- Blandið þurrefnum saman í skál.
- Pískið eitt egg og mjólk saman.
- Hellið eggjablöndunni saman við þurrefnin og bætið ab mjólk og vanillu út í deigið.
- Blandið vel saman með sleif og bætið bræddu smjöri og sykri út í lokin.
- Það er ágætis regla að geyma deigið í 30 – 60 mínútur áður en þið steikið pönnukökurnar en þið steikið þær upp úr smjöri á pönnu í nokkrar mínútur eða í um það bil 2 mínútur á hvorri hlið.
Berið fram með ristuðum pekanhnetum og góðu sírópi.
Bon appétit!
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir