Ég elska fisk og gæti borðað hann hvern einasta dag, hann er ekki bara ljúffengur heldur er hann einnig mjög hollur. Í kvöld langaði mig í eitthvað létt og gott og þá var laxasalat fyrir valinu. Það er tilvalið að nota fiskmeti í salöt og þetta salat á eftir að koma ykkur á óvart. Einfalt, fljótlegt og afar gott bæði fyrir líkama og sál.
Laxasalat með jógúrtdressingu
- fyrir þrjá til fjóra
ólífuolía
smjör
1 stór sæt kartafla eða tvær meðalstórar
500 g lax, beinhreinsaður
salt og nýmalaður pipar
tímían
1 poki gott salat t.d. spínat eins og ég notaði í kvöld
ferskt dill
sítróna
ristaðar pekanhnetur
fetaostur
Aðferð:
- Afhýðið kartöfluna og skerið í litla bita, kryddið til með salti og pipar og leggið í eldfast mót. Hellið smá olíu yfir og bakið í ofni við 180°C í 30 – 35 mínútur eða þar til þær eru mjúkar í gegn.
- Skerið laxinn í jafn stóra bita
- Hitið olíu á pönnu, steikið laxinn í 2 – 3 mínútur á hvorri hlið. Kryddið til með salti, pipar og tímían. Þegar það er ca. 2 mínútur eftir af eldunartímanum er gott að bæta smjörklípu út á pönnuna.
- Þegar kartöflurnar eru tilbúnar þá dreifið þið smátt söxuðu dilli yfir þær og kreistið smá sítrónusafa yfir í lokin.
- Blandið spínati, kartöflum, laxi, fetaosti og pekanhnetum vel saman í skál og berið fram með jógúrtsósunni góðu. (uppskrifin er hér að neðan)
Einföld og góð dillsósa
- Þessi sósa hentar með flestum fiskréttum en dill og fiskur passa mjög vel saman.
2 dl grískt jógúrt frá MS
1 hvítlauksrif
handfylli dill
salt og nýmalaður pipar
skvetta af hunangi
skvetta af sítrónusafa
Aðferð:
- Maukið allt saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél, geymið í kæli áður en þið berið fram með salatinu.
Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.
Bon Appétit!
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir