Samfélagsmeinið

Það er ósanngjarnt og ömurlegt að lesa frétt um ellefu ára dreng sem tók sitt eigið líf.
Ellefu ára gamall, allt lífið framundan.
Börn eiga að njóta sín og barndómurinn á að vera besti tíminn. En hvað gerist?
Einelti, það er það sem gerist.
Einelti er það ferlegasta sem ég veit um. Samfélagsmein sem dregur lífskjarkinn úr fólki.
Flestir þurfa að berjast gegn mótlæti í æsku, það veit ég af eigin raun.
Þegar að ég var yngri þá fluttum við erlendis og þá var ansi erfitt að falla inn í hópinn.
Ég man þegar að ég lagðist á koddann fyrstu dagana og hugsaði “ Jæja þegar að við flytjum aftur heim þá verður allt orðið gott“. Ég beið alltaf eftir lokadögunum því það voru iðulega bestu tímarnir. Ég flutti tvisvar sinnum erlendis, til Noregs. Á tvo staði og því reyndist það þolraun ein, sérlega í annað skiptið.
 Ég þurfti stundum að halda aftur að mér tárum í skólanum. Það er erfitt að vera unglingur og ætla að falla inn í hópinn.
Ég átti t.d. ekki mikið af pæjufötum, var fótboltastelpa af Skaganum en það skildu ekki allir
.
Bekkjasystur mín komu eitt sinn að mér og spurðu hvort ég ætti eiginlega engin föt og af hverju ég væri alltaf í sömu fötunum. Líkast til hefði svarið „mér líður bara vel í þeim“ ekki fallið í kramið hjá þeim.
Ég fékk pæjubuxur, mætti í þeim í skólann og fékk glott. Ég labbaði inn í tónmennt og sá krassað á nokkur borð „Eva með gulu tennurnar“ “ Tannburstaðu þig Eva“. Líkast til hefði svarið að tennurnar mínar sködduðust mikið eftir að ég datt eitt sinn í æsku og ég burstaði mig auðvitað á degi hverjum, ekki skipt neinu máli.
Fyrsta froðu-teitið í skólanum. Ég var súper spennt – bekkjarsystur mínar hringdu í mig sama dag þegar að þær voru saman úti a borða og létu mig vita að maður ætti að mæta í sundfötum og með sundhettu. Mér fannst það hálf kjánlegt en ég meina afhverju ætti ég ekki að trúa þeim, ég var ný en þær vanar.
Ég var að æfa fótbolta með eldri stelpunum á þeim tíma og ég mætti á fótboltaæfingu fyrir teitið og spurði afhverju maður ætti að vera í sundfötum o.s.frv. Þær urðu reiðar, tóku mig með sér í skólateitið og húðskömmuðu bekkjarsystur mínar fyrir framan alla. Mér leið vel! Einhver stóð með mér. Þær skömmuðust sín og ég gekk inn með stóru stelpunum, þvílík pæja.
Ég er hálf kjánaleg að skrifa um mína upplifun af einelti. Ég er alls ekki að gera mig að einhverju fórnarlambi og að bera mitt saman við það ömurlega sem börn eru að ganga í gegn um, en eitt veit ég þó að vera einn á móti fjöldanum getur reynst þolraun ein. Ég átti góða að, það eiga ekki allir góða að. Krakkar/unglingar upplifa hundraðfalt verri einelti á degi hverjum, mitt var vægt en alveg nógu mikið til þess að mér leið illa með sjálfa mig og lífið.
Ég viðurkenni það að ég hef sjálf tekið þátt í því að stríða öðrum, skilja útundan o.s.frv. þegar að ég var yngri. Mér líður illa með það í dag, ég vissi betur. Ég vissi alveg hvernig hinum aðilanum leið vegna þess að ég hafði verið í þeirra sporum. En að fylgja straumnum og halda að maður sé betri en einhver er það versta sem við getum gert.
Ég og þú erum alveg eins, ég er ekki betri en þú og þú ert ekki betri en ég. Þess vegna höfum við ekki rétt á því að ganga yfir annað fólk eins og tuskur.
Samfélagið tekur þátt í einelti, t.d. fjölmiðlar. Tökum eina manneskju og úthúðum þar til manneskjan á ekki séns. Hvaða afsökun notum við fyrir því? Jú manneskjan bauð uppá það, alveg eins og ég bauð uppá það að mæta í skólann í ljótum buxum.
Við verðum að passa okkur, nú er ég messa yfir sjálfa mig í leiðinni. Passa okkur á því að við tökum okkur ekki það bessaleyfi að vera betri en einhver annar og halda að það sé í lagi að niðurlægja og hlæja af öðrum. Við þurfum að setja okkur í fótspor annarra, það sem er fyndið fyrir okkur getur reynst ömurlegt fyrir annann.
Pössum upp á hvert annað, þetta er ekki fallegt. Ef fullorðið fólk hugsar ekki sinn gang hvernig eiga þá börnin að læra af þeim eldri. Þessi frétt um þennann unga pilt vakti mig til umhugsunar. Ég ætla að passa betur uppá það hvernig ég kem fram við aðra.
Komdu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig.
        xxx

Endilega deildu með vinum :)

2 comments

  • Flott grein hjá þér Eva Laufey. Ég bý í húsinu fyrir aftan þig. Passaði líka Maren og Hadda í denn 🙂 Við höfum verið að berjast við einelti fyrir hönd sonar okkar – þetta hefur meira og minna staðið yfir alla hans skólagöngu (hann er í 8. bekk). Gott að lesa reynslu annarra – gefur manni byr undir báða…

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *