Safaríkar fylltar kjúklingabringur með ofnbökuðum kartöflum og sveppasósu. Mér finnst ótrúlega gaman að elda kjúkling, það býður upp á svo marga möguleika. Ég prufaði í fyrsta sinn að elda fylltar kjúklingabringur um daginn og það heppnaðist mjög vel að mínu mati. Ég hef sjaldan verið eins södd og sæl eftir máltíð. Þetta er að mínu mati tilvalinn helgarmatur ef svo má að orði komast, ég veit ekki með ykkur en ég legg svolítið meira upp úr matnum sem ég borða um helgar. Líklega er það vegna þess að þá er meiri tími til þess að dúllast og prufa sig áfram í eldhúsinu.
Ég var svo heppin að fá foreldra og litla bróðir heim frá Noregi um helgina svo það verður aldeilis veisla í mömmukoti alla helgina og það gleður mig endalaust. Móðir mín er besti kokkur sem ég veit um og hún er alltaf að kenna mér eitthvað nýtt og spennandi. Þannig þetta stefnir nú í ljúfa helgi með fjölskyldunni.
Fylltar kjúklingabringur
(Uppskrift miðast við 3 – 4 manns)
3 kjúklingabringur
spínat
sveppir
rjómaostur með kryddblöndu
fetaostur
beikon
ferskt timjan
fersk steinselja
salt og pipar
Aðferð:
Ég útbjó einfalda fyllingu. Setti handfylli af spínati, 2-3
msk af söxuðum sveppum, 2-3 msk af fetaosti, 2 – 3 msk af rjómaosti með
kryddblöndu, 1 tsk ferskt timjan og 1 tsk af ferskri steinselju, salt og pipar
og blandaði þessu saman í potti við vægan hita í 1 – 2 mínútur.
msk af söxuðum sveppum, 2-3 msk af fetaosti, 2 – 3 msk af rjómaosti með
kryddblöndu, 1 tsk ferskt timjan og 1 tsk af ferskri steinselju, salt og pipar
og blandaði þessu saman í potti við vægan hita í 1 – 2 mínútur.
- Fyrst er að skola kjúklingabringurnar vel og
þerra með pappír. Ég skar lundina frá og lagði til hliðar. Setjið
kjúklingabringurnar því næst í lítinn plastpoka (nestispoka) og fletjið
bringurnar út með kjöthamri. - Leggið bringurnar síðan á disk eða bretti og
setjið 2 msk af fyllingu á hverja bringu. Leggið lundina ofan á og vefjið 3 – 4
beikonsneiðum utan um hverja bringu. Til þess að fyrirbyggja að þetta myndi nú
detta í sundur við eldun þá stakk ég nokkrum tannstönglum í bringurnar. - Steikið bringurnar við vægan hita á pönnu í smá stund, 2 mínútur á hvorri hlið
dugar. Leggið því næst bringurnar á eldfast mót og setjið inn í ofn við 180°C í
25 – 30 mínútur.
Meðlætið var einfalt, ofnbakaðar kartöflur, ferskt salat og sveppasósa.
Ofnbakaðar kartöflur
Ég byrjaði á því að flysja sætar kartöflur, venjulegar kartöflur og gulrætur. Skar því næst kartöflur og gulræturnar í litla bita. Ég hitaði olíu við vægan hita á pönnu og byrjaði á því að setja hvítlauk saman við sem ég var búin að skera í grófa bita, því næst bætti ég ferskum timjan greinum við olíuna og saxaðri steinselju. Því næst fóru kartöflur og gulrætur á pönnuna í smá stund, rétt til að brúna þær. Saltið og piprið að vild. Leggið síðan kartöflur og gulrætur í eldfast mót og inn í ofn við 180°C í 35 – 40 mínútur.
Sveppasósa.
Hitið smá smjör í potti og saxað timjan (1tsk) og sveppi saman við, magn af sveppum fer eftir smekk. Sáldrið salti og pipar yfir að vild og hrærið vel í þessu. Hellið kjúklingasoði í pottinn (ca. 250 ml – ég var búin að leysa 1 kjúklingatening í 250 ml heitu vatni) bætið 60 ml rjóma saman við og leyfið suðunni að koma upp. Smakkið sósuna til á þessum tímapunkti, þið viljið kannski meiri pipar eða meiri salt. Þykkið sósuna með smjörbollu eða maizena sósumjöli. Mjög einföld sósa sem hentar vel með þessum kjúklingabringum.
Ég hef sjaldan verið eins södd og sæl eftir máltíð. Kjúklingurinn var dásamlega safaríkur og bragðlaukarnir fengu að njóta sín.
Ég mæli með að þið prufið þessa uppskrift kæru vinir og njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran