Þessi vika hefur verið sérdeilis viðburðarrík og mikið að gera svo ég hef ekki haft mikinn tíma fyrir matargerð en mig langar þó alltaf í eitthvað gott að borða og þá er ekkert betra og fljótlegra en súpa. Súpur eru í sérstöku eftirlæti hjá mér og ég gæti borðað þær í öll mál. Ég bjó til tómatsúpu eitt kvöldið í vikunni, súpan heppnaðist vel að mínu mati og mig langar því til þess að deila uppskriftinni með ykkur.
Rjómalöguð Tómatsúpa
1 msk ólífuolía
1/2 meðalstór laukur, smátt saxaður
2 – 3 hvítlauksrif, pressuð
2 dósir niðursoðnir saxaðir tómatar.
handfylli af basilíku, smátt söxuð
800 ml vatn
1 kjúklinga – eða grænmetisteningur
3 dl rjómi
3 dl rjómi
salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
Hitið olíu við vægan hita, steikið laukinn og hvítlaukinn í smá stund. Bætið söxuðum tómötum, vatni, basilíku og kjúklinga-eða grænmetistening saman við. Leyfið þessu að malla við vægan hita í 10 – 15 mín. Ég lét súpuna í blandara en auðvitað er hægt að nota töfrasprota til þess að hræra þessu öllu vel saman. Setjið svo allt í pottinn aftur og bætið rjómanum við, kryddið til með salti og pipar eftir smekk. Leyfið súpunni að malla í nokkrar mínútur og smakkið auðvitað til, það gæti vel verið að þið viljið meiri basilíku eða meiri pipar.
Það er alltaf gott að bera brauð fram með súpu, að þessu sinni þá lét ég nokkrar brauðsneiðar með osti, tómötum og þurrkaðri basilíku inn í ofn og bakaði í nokkrar mínútur. Skar svo niður allt það grænmeti sem ég átti til, skar niður ferskan mozzarella og svolítið vel af balsamik ediki. Ljúffengt!
Einfalt, ljúffengt og bragðgott. Mæli svo sannarlega með að þið prufið þessa súpu kæru vinir. Hún er líka enn betri daginn eftir svo ég var verulega ánægð að eiga súpu í hádeginu í gær.
Vonandi eigið þið ljúfan dag.
xxx
Eva Laufey Kjaran