Piparkökur og kökuboxin hennar ömmu Stínu

Mánuður í jólin og þá má sko byrja að baka smákökur. Gærdagurinn byrjaði á lærdómi en svo tók baksturinn við heima hjá ömmu Stínu. Við áttum ansi ljúfan dag saman. Amma kenndi okkur að baka piparkökurnar hennar sem hún hefur bakað í mörg ár, þær eru að mínu mati ótrúlega góðar.
Amma mín Stína og Harpa frænka. Tilbúnar í baksturinn.
Sigurbjörg Heiða og amma, þær eru yndislegar. Sigurbjörgu fannst kökurnar hennar ömmu rosalega góðar.

Piparkökurnar hennar ömmu

 • 500 g hveiti
 • 400 g púðursykur
 • 250 g smjör, við stofuhita
 • 2 egg
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 tsk natron
 • 2 tsk engifer
 • 2 tsk kanill
 • 1 tsk negull
 • salt á hnífsoddi
Aðferð:
 1. Forhitið ofninn í 180°C.
 2. Setjið öll hráefnin saman í hrærivél og hrærið við miðlungshraða í nokkrar mínútur.
 3. Því næst setjið þið deigið á eldhúsborðið og hnoðið.
 4. Skerið deigið í nokkrar lengjur og rúllið hverri lengju upp.
 5. Skerið lengjuna í litla bita.
 6. Mótið litlar kúlur og setjið á bökunarplötu, þrýstið kúlunni niður með t.d. gaffli.
 7. Leggið kökurnar á pappírsklædda ofnplötu og bakið við 180°C í 10 – 12 mínútur.
Harpa frænka myndarleg í eldhúsinu
Amma sýnir okkur réttu tökin og Sigurbjörg Heiða fylgist mjög spennt með.
Lyktin af deiginu er dásamleg, það er erfitt að standast freistinguna að fá sér smá bita af deiginu.
Ilmurinn af kökunum er dásamlegur og enginn lykt betri. Lyktin af jólum ef svo má segja.
Kökurnar eru langbestar nýkomnar úr ofninum.
Kökuboxin hjá ömmu voru fyllt í gær. Þessi kökubox hefur amma mín átt í mörg ár, ég man þegar að amma og afi bjuggu í Kópavoginum og við komum í heimsókn fyrir jólin þá vissi ég nákvæmlega hvar þessi ljúffengu jólabox væru geymd, hægra megin í eldhúsinu í eldhússkápunum vinstra megin, nálægt glugganum. Þar voru boxin geymd og amma var alltaf búin að baka allskyns sortir og búin að fylla fallegu jólaboxin af yndislegum kökum, algjört smáköku sæluríki sem ég hafði fullan aðgang að 🙂
Nýbökuð piparkaka og ísköld mjólk. Ég á svolítið erfitt með að lýsa með orðum hvað mér þótti vænt um gærdaginn, svona dagar eru einfaldlega yndislegir. Amma sagði mér áður en að ég fór heim í gær að við værum rétt að byrja svo ég er mjög spennt að halda áfram að baka með ömmu fyir jólin.
Nú ætla ég hinsvegar að snúa mér að lestrinum, sem betur fer þá fékk ég kökur með mér heim í gær svo lesturinn í dag verður huggulegri fyrir vikið með kökur mér við hlið.
Njótið ykkar í dag elsku vinir
xxx
Eva Laufey Kjaran

 

Endilega deildu með vinum :)

2 comments

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *