Franskar makrónur eru ómótstæðilega góðar og algjört augnayndi. Þegar við Haddi fórum til Parísar. ( þetta er önnur færslan í röð sem ég minnist á París, það er bara allt svo ljómandi gott við París) þá gekk ég framhjá Ladurée „The Parisian tea salons„. Það má rekja sögu Ladurée aftur til ársins 1862, makrónur eru þeirra sérgrein og þær eru svo dásamlega góðar að það nær öngvri átt. Mér finnst ótrúlega gaman að baka makrónur (þegar baksturinn gengur upp). Ég fór á námskeið hjá Salt eldhúsi og mæli svo sannarlega með að þið farið á námskeið hjá henni Auði í makrónubakstri.
Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift að makrónum með súkkulaðifyllingu.
Makrónur gleðja bæði augað og magann.
Franskar makrónur
ca. 20 – 22 kökur.
140 g möndlumjöl
185 flórsykur
4 stk. eggjahvítur
60 g sykur
matarlitur (ég nota gel matarliti frá Wilton)
Aðferð:
1. Stillið ofninn á 160°C. Þeytið eggjahvíturnar lauslega eða þar til fer að freyða, þá er hraðinn aukinn og þeytt þar til mjúkir toppar myndast í eggjahvítuna, bætið sykrinum saman við í þremur skömmtum. Þeytið áfram þar til blandan myndar stífa toppa og er orðin mjúk og glansandi. Ef þið ætlið að nota matarlit þá bætið þið honum saman við á þessu stigi og blandið varlega saman við stífþeyttu eggjahvíturnar.
2. Vigtið og sigtið saman flórsykur og möndlumjöl og blandið vel saman. Blandið þurrefnum varlega saman við eggjahvíturnar með sleikju og þess gætt að allt loft fari ekki úr blöndunni, bætið þurrefnum saman við í þremur skömmtum. Þegar að þið hafið blandað þurrefnum saman við þá er komið að aðferð sem kallast „le macronage“, veltið/hrærið blöndunni 30 – 50 sinnum eða þangað til blandan myndar óslitinn borða þegar hún er látin leka af sleikjunni og niður í skálina, hún á að halda lögun sinni í um 30 sekúndur.
3. Setjið blönduna í sprautupoka (ég kaupi mjög fína sprautupoka í IKEA á fínu verði).
4. Sprautið blöndunni á smjörpappír, búið til litla hringi á stærð við 10 kr. Ég keypti þessar frábæru mottur hjá Salt eldhúsi og mæli með þeim. Hér getið þið keypt mottuna.
Takið því næst plötuna upp og látið hana falla niður á borðið nokkrum sinnum til að fletja kökurnar aðeins út og losna við loftbólur. Leyfið kökunum að hvílast í ca. 30 mínútur eða þar til þær hafa stífnað svolítið á yfirborðinu.
5. Setjið kökurnar í 160°C (undir/yfir hiti) heitann ofn og bakið í 15 mínútur á næst eftstu rim. Mjög mikilvægt að fylgjast með bakstrinum vegna þess að ofnar eru mjög mismunandi og það tekur smá tíma að finna út hvaða tími hentar best fyrir kökurnar í ofninum. Þið getið prófað að taka fremstu kökuna í ofninum eftir 15 mínútur og hreyfa við henni, ef hún færist ekki þá er hún ekki tilbúin og þarf lengri tíma.
Kælið kökurnar og búið til ljúffenga fyllingu, það eru svo margar uppskriftir að kremum sem henta vel á þessar kökur svo það er bara að prófa sig áfram. Ég ætla að deila með ykkur minni eftirlætis fyllingu, súkkulaðifylling með Saltverkssalti.
Súkkulaðifylling með Saltverkssalti
100 g dökkt súkkulaði
25 g smjör
5 msk rjómi
Lakkríssalt frá Saltverkssalti á hnífsoddi
Aðferð:
Skerið smjörið og saxið súkkulaðið, hitið rjómann að suðu og hellið yfir súkkulaðið og smjörið. Leyfið þessu að standa í svolitla stund og hrærið svo vel í blöndunni. Bætið saltinu saman við og blandið vel saman.
Setjið fyllinguna í sprautupoka og geymið í kæli í svolitla stund eða þar til fyllingin hefur stífnað, gætið þess þó að kremið sé ekki of hart því þá getur verið vandasamt að sprauta því á kökurnar.
Kökurnar eru settar saman tvær og tvær með dásamlegri fyllingu á milli. Gott er að geyma kökurnar í ísskáp 24 – 28 tímum áður en þær eru borðaðar. Munið þó að taka þær út úr ísskápnum vel áður en þið berið þær fram.
Ég keypti þessa litlu fallegu poka í IKEA og færði vinkonu minni þessar kökur að gjöf þegar hún opnaði myndlistarsýninguna sína hér á Akranesi. Tilvalið að gefa kökurnar sem gjöf!
Ég vona að þið njótið vel kæru vinir
xxx
Eva Laufey Kjaran