Ofnbakaður lax með pestó

 Ég er mjög mikið fyrir fisk og borða hann að minnsta kosti tvisvar sinnum í viku. 
Fiskur er ótrúlega hollur og svakalega góður. Mér finnst sérlega skemmtilegt að elda fisk, það er hægt að elda hann á svo marga vegu og búa til svo marga góða rétti. En það einfalda er líka ofsalega gott, ég sýð mér stundum ýsu og stappa hana saman við kartöflur og smjör. Það finnst mér afskaplega gott! 
Lax er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Soðinn, ofnbakaður, grillaður, grafinn, reyktur eða bara hrár á sushi. En nú er ég farin að tala eins og Stella í Orlofi, næsta færsla verður sumsé um lax í hlaupi og lax í mæjónesu. Já, nú er ég farin að tala um eitthvað allt annað en það sem ég ætlaði að tala um, ójæja víst ég er nú byrjuð. Stella í Orlofi er ein sú allra besta kvikmynd sem ég hef séð.  Ég get horft á hana aftur og aftur, atriðið þar sem hún matreiðir lax á marga vegu er ansi frábært.  Þegar að ég var yngri þá heillaðist ég af þessu atriði, réttirnir voru svo flottir hjá frú Stellu og þá sérstaklega lax í hlaupi. Mér finnst þó ansi ólíklegt að ég eigi eftir að prufa að útbúa lax í hlaupi, rétturinn heillar mig ekki jafn mikið í dag og hann gerði hér áður fyrr. 
En nóg um Stellu í bili, nú ætla ég að deila með ykkur uppskrift af virkilega einföldum rétt sem mér þykir afskaplega góður. Ég vona að þið njótið vel kæru vinir. 
 Ofnbakaður lax með pestó 
Uppskrift er fyrir fjóra manns

4 bitar lax, u.þ.b 170 g hver, roð-og beinhreinsaður
salt og nýmalaður pipar
grænt pestó, uppskrift finnið þið HÉR
8 arkir smjörpappír, 30 x 30 cm 
Hitið ofninn í 200°C. Skolið bitana og kryddið þá til  með salti og pipar. 
  Ég bjó til mitt pestó, uppskrift  finnið þið HÉR það er ansi auðvelt að búa til sitt eigið pestó og mæli ég með því, ég grófhakkaði pestóið að þessu sinni og mér fannst reglulega gott. 

  Brjótið upp á smjörpappírinn, leggið laxabitann eða bitana á pappírinn og smyrjið ca. 1 – 2 msk af pestó yfir hvern bita, en auðvitað ráðið þið magninu sjálf. 
 Pakkið laxinum vel inn og gætið þess að hvergi sé gat á pappírnum. 
Setjið inn í heitan ofn og eldið í 12 – 15 mín. 
 Meðlætið var ansi einfalt og ljúffengt. 
Sætar kartöflur og gulrætur með sesamfræjum

2 stórar sætar kartöflur 
3 – 4 gulrætur
2 msk ólífuolía
salt og pipar
Flysjið og skolið kartöflurnar og gulræturnar. Skerið bæði kartöflurnar og gulræturnar í litla bita. Hitið vatn að suðu, bætið salti saman við vatnið. Sjóðið kartöflurnar og gulræturnar í u.þ.b. 10 mín. Fjarlægið allt vatn og þerrið vel. Hitið olíu á pönnu við vægan hita, steikið í nokkrar mínútur. 
Kryddið til með salti og pipar. Að lokum bætið þið ca. 2 msk af sesamfræjum saman við og steikið í 2 – 3 mínútur til viðbótar. 
Ferskt salat

Vatnsmelóna
agúrka
spínat 
kirsuberjatómatar
fetaostur
salt og pipar
Öllu blandað saman, magn eftir smekk. Vatnsmelónan er dásamleg í þessu salati, svo fersk og góð. 
  Það tekur enga stund að útbúa þessa hollu og bragðgóðu máltíð. Mér finnst best að bera réttinn fram með einföldum kartöflum, gulrótum, fersku salati og grísku jógúrti. 

Mér finnst  mjög gaman að bera réttinn fram í bögglum, sérstaklega ef ég er með góða gesti í mat. Það er ansi skemmtilet að leyfa gestunum að opna þá sjálfir. Það er líka svolítið öðruvísi að bera fiskinn fram í bögglum og allt sem er öðruvísi í matargerð heillar mig verulega mikið.
Ég mæli hiklaust með þessum rétt, hann er virkilega ljúffengur. 
Vonandi eigið þið ljúfan miðvikudag kæru vinir. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

19 comments

  • Já, mér finnst þetta mjög flott síða hjá þér Eva, en sammála síðasta ræðumanni með orðið "ansi". 🙂 Mér finnst færslurnar fallegar, myndirnar æðislegar og góðar uppskriftir, en textinn verður ekki nógu fallegur þegar sama orðið er ofnotað. Af því allt annað er svo flott, þá finnst mér þetta eitthvað sem er vert að benda á, af mestu góðvild samt sem áður 🙂

    • Mér finnst reglulega gott að fá ábendingar og þakka fyrir þær. Margt sem ég tek ekki eftir sjálf og þá er gott að eiga góða lesendur sem benda mér á það sem betur má fara. =)

    • Úff…Gott að ég særði þig ekki 🙂 Var með pínu hnút í maganum yfir þessu.

      Ég hef tekið ástfóstri við þessa síðu! Hef gert svo rosalega margar uppskriftir sem þú hefur birt hérna.
      Mér finnst þú ættir að gefa út bók! Gætir safnað saman mörgum uppskriftum og gefið út fyrir næstu jól? 🙂 Hugmynd!

  • Er það bara hjá mér sem að "HÉR" linkurinn að pestóinu virkar ekki? Er að spá í að gera svona í kvöld og langar að hafa pestóið þitt með en ekki bara eitthvað í krukku eins og alltaf:)

  • HæHæ
    Væri hægt að útfæra þessa uppskrift yfir á pönnu? Er nefnilega ekki með ofn en hún lítur hrikalega vel út 🙂

  • Var að fá ábendingu um þessa flottu síðu og líst mjög vel á . Til hamingju með þetta.
    Sakna þessa þó það sé ekki prentmerki svo hægt sé að prenta út þessar fínu uppskriftir. En bara smá "tips" til þeirra sem pirra sig á ansi oft línunni, þá er þetta blog siða og á þeim síðum er oftast óformlegra ritmál heldur en á "almennum" vefsíðum. Sem eru jafnvel ritstýrðar 😉 😉 En mikið hlakkar mig til að prófa þessa uppskrift og fleiri af þessari síðu. Kveðja, Sigurveig

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *