Ofnbakað spaghetti með ljúffengum kirsuberjatómötum

Ég borða mjög mikið af pasta og spaghettí, það er hægt að búa til svo marga rétti úr þessu dásamlega hráefni. Þegar að ég hef ekki mikinn tíma til þess að elda þá enda ég oftast á því að útbúa fljótlegan pasta/spaghettírétt. Á tyllidögum er líka mjög gott að fá sér rauðvínsglas með matnum og njóta í góðra vina hópi. Mig dreymir um að heimsækja Ítalíu einn daginn og borða mig í gegnum landið, pasta, pítsur og rauðvín í öll mál. Fer vonandi til Ítalíu fyrr en síðar. 
Þessi réttur sem ég ætla að deila með ykkur í dag er svakalega einfaldur og ljúffengur, brauðstangirnar sem þið sjáið á myndinni hér fyrir ofan bakaði ég í Salt eldhúsi þegar ég fór á bakstursnámskeið hjá þeim. Ég hef verið að prófa mig áfram í brauðbakstrinum og er komin með margar góðar uppskriftir í matreiðslubókina mína. 

Ofnbakað spaghettí með ljúffengum kirsuberjatómötum

1 pakki spaghettí 
ólífuolía
1 askja kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
3 hvítlauksrif, smátt söxuð
1 meðalstór rauðlaukur, smátt saxaður
1/2 rautt chili, fræhreinsað
1 krukka maukaðir tómatar, ég kaupi frá Sollu. 
1/2 kjúklingateningur
skvetta af agave sírópi
handfylli smátt söxuð basilíka
handfylli klettasalat 
ferskur Parmesan ostur
sjávarsalt og pipar 
Hitið vatn í potti ásamt sjávarsalti og olíu. Þegar vatnið er farið að bullsjóða þá setjið þið spaghettíið saman við og sjóðið samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Á meðan að spaghettíið er að sjóða þá útbúum við tómatana og sósuna.
Skerið kirsuberjatómatana í tvennt og raðið á bökunarpappír. Sáldrið salti, pipar og ólífuolíu yfir og setjið í ofnskúffu og bakið í ofni við 200°C í 10 – 12 mínútur. 
Sósan er mjög einföld og bragðmikil, ég geri þessa sósa mjög oft þegar að ég er með spaghettí eða pasta. Þetta er sósa sem gengur við allt! 
Byrjið á því að hita olíu við vægan hita á pönnu, mýkið hvítlaukinn, rauðlaukinn og chili í olíunni. Bætið því næsta maukuðu tómötunum, kjúklingakrafti og skvettu af agave sírópi. Kryddið til með salti og pipar. Hér er auðvitað algjör skylda að smakka sig til og frá. Spaghettíið ætti að vera tilbúið svo þið losið frá vökvann og bætið spaghettíinu út í sósuna. 
Bætið basilíku og klettasalati saman við og blandið þessu vel saman. 
Hellið öllu í eldfast og bætið kirsuberjatómötunum saman við, rífið niður Parmesan ost og duglega af honum. Bakið í ofni við 180°C í 13 – 15 mínútur. 
Berið réttinn fram með góðu brauði og rífið duglega af ferskum Parmesan osti yfir. Þetta er stórgóð máltíð sem er í miklu eftirlæti hjá mér. Það er líka mjög gott að bæta t.d. tígrisrækjum og kjúkling saman við. Prófið ykkur áfram og njótið vel kæru vinir. 

xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *