Ostakökur eru hvers manns hugljúfi og eiga alltaf vel við. Ostakökur er svolítið þungar í maga að mínu mati svo þessi stærð er algjör draumur, sérstaklega ef þið berið kökurnar fram í veislum. Þá er nóg af plássi í maganum fyrir hinar kræsingarnar.
Hægt er að nota hvaða ber sem er í þessa uppskrift t.d. bláber, jarðarber, kirsuber eða rifsber, það fer allt eftir smekk hvers og eins. Þessi uppskrift er að bláberjaostakökum.
Litlar bláberjaostakökur
Botn:
250 g Lu Bastogne kex
130 g smjör, brætt
Myljið kex í matvinnsluvél, blandið smjöri saman við og þrýstið svo kexblöndunni niður í bollakökuform. Í hvert form fer u.þ.b. 1 1/2 msk. af kexblöndu
Fylling:
180 g hvítt súkkulaði
130 ml rjómi
500 g rjómaostur, hreinn
2 dl sykur
2 egg
1 tsk. vanilla extract eða vanilludropar
250 g bláber
Hitið ofninn í 150°C. Bræðið hvítt súkkulaði í rjóma við vægan hita, leggið súkkulaðiblönduna til hliðar þegar súkkulaðið er orðið silkimjúkt og kælið. Setjið rjómaost, sykur, egg og vanillu í hrærivélaskál og blandið vel saman. Bætið súkkulaðiblöndunni rólega saman við í u.þ.b. þremur skömmtum þegar ostablandan er orðin mjúk og slétt. Hrærið rólega saman. Blandið ferskum bláberjum varlega saman við. Setjið ostablönduna ofan á kexblöndun í bollakökuformunum, u.þ.b. 2 – 3 msk. í hvert form magnið fer eftir stærð formsins, passið bara að hafa þær allar jafnar.
Bakið kökurnar í miðjum ofni í 25 – 30 mínútur. Kælið kökurnar alveg áður en þið berið þær fram.