Lífið

Lífið getur verið svo skemmtilegt og tækfærin mörg ef maður bara kýlir á þau.
 Afsakið bloggleysið kæru vinir, mér finnst það agalega leiðinlegt að hafa ekki tíma til þess að sinna blogginu nógu vel þessa dagana en fljótlega verða breytingar á því. Ég hlakka til að deila með ykkur uppskriftum í haust/vetur. Fljótlega verður breyting á blogginu, kærkomin breyting. Þá verður auðveldara fyrir ykkur að nálgast uppskriftir og bloggið verður þægilegra að mörgu leyti og svo ætla ég að bæta við skemmtilegum nýjungum sem þið verðið vonandi ánægð með.  
Nú fer að líða að því að matreiðslubók mín komi út, ég full tilhlökkunar og í leiðinni smá stressuð í leiðinni. Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt verkefni og það verður gaman að sjá lokaútkomuna, það er verið að setja bókina upp og ég er að klára að taka síðustu myndirnar þessa dagana svo þetta er allt að smella. Það er mjög sérstakt að sjá hugmyndina sína verða að veruleika.
 Ég fékk skemmtilegt boð um daginn og ég ákvað að slá til, mér bauðst að vera með matreiðsluþætti á Stöð 3 núna í haust. Nú er ég að undirbúa þættina og ég hlakka mikið til að hefja tökur, þetta er eitt af því sem mig hefur langað til þess að prófa og ég er mjög spennt. 
Ég ákvað að byrjun haustannar að minnka við mig í skólanum þessa önnina, einfaldlega vegna þess að það eru svo  mörg skemmtileg tækifæri sem mér býðst um þessar mundir og ég vil grípa þau núna. Ég vil lifa í dag, gera það sem mér þykir skemmtilegt og ég nýt mín í. Annað væri eflaust tóm vitleysa. Ég er ánægð í náminu mínu og ég er ánægð í þeim verkefnum sem ég er að vinna í, það einfaldar hlutina að taka fáa áfanga og hafa tækifæri til þess að sinna bókinni, fluginu, þáttum, námskeiðum og fleira til. 
Lífið er í dag, ég þarf að minna mig á það á hverjum degi og það sama á við um okkur öll. Það er nauðsynlegt að fylgja því sem gerir okkur ánægð, því ef við erum ánægð þá gerum við hlutina miklu betur og fáum að njóta okkar í leiðinni. Það væri súrt að líta tilbaka eftir nokkur ár með eftirsjá. “ Hvað ef..“.  
Ég byrjaði á að segja hér fyrir ofan hvað lífið væri skemmtilegt og óvænt, fyrir nokkrum árum þá var ekki á planinu að stofna blogg sem ætti eftir að gefa mér svo mörg tækifæri. 
Það er ykkur að þakka kæru lesendur. 
Ég fór í myndatöku í gær og frænka mín hún Tara Pétursdóttir gerði mig fína. Hún er algjör snillingur og ég mæli svo sannarlega með henni. Ég var í myndatöku fyrir Lífið, en á morgun mun birtast viðtal við mig í því blaði.

xxx

Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *