Lasagne

Lasagne er einn af mínum uppáhalds réttum. Þetta er réttur sem klikkar sjaldan og hann er í raun aldrei eins. Það eiga flestir sínar eigin útgáfur af lasagne. Ég hef verið að prufa mig áfram með mína útgáfu af lasagne og ég er orðin býsna ánægð með réttinn. Að þessu sinni þá gerði ég ekki Bechamel sósuna vegna þess að ég var með svo mikið af ostum. Bechamel sósan er þó ansi ljúffeng í lasagne. 
Lasagne er alltaf gott og sannkallaður fjölskylduréttur. Ég veit ekki um marga sem myndu slá hendinni á móti góðu lasagne. Er nokkuð til betri leið en að hefja góða helgi en að hóa til sín fjölskyldunni og bjóða þeim upp á ljúffengt lasagne? Þannig eiga föstdagskvöld að vera að mínu mati, að byrja kvöldið á góðum mat og borða á sig gat, ég geri það nú einum of oft þegar lasagne á við sögu. Færa sig því næst upp í sófa, horfa á góða mynd og spjalla við fólkið sitt. Svo um leið og súkkulaðiþörfin kemur þá er fyllt á nammiskálina, það má allt á föstudögum. Ég er nú hrædd um það. 
En nóg um nammi og sófakúr, ég ætla að deila með ykkur uppskrift af mínu lasagne. 
Ég vona að þið eigið eftir að njóta vel. 

Lasagne

Fyrir um það bil 6 – 8 manns

2 msk ólífuolía 
1 kg nautahakk
1 stór stilkur sellerí, smátt skorinn
1 rauðlaukur, smátt skorinn
2 hvítlauksgeirar, pressaðir
nokkrir sveppir ca. 8 – 9 , smátt skornir
1 tsk. steinselja, þurrkuð
spínat, magn eftir smekk
kotasæla, lítill dós
rifinn mozzarella ostur, magn eftir smekk
parmesan ostur, magn eftir smekk
1 pakki lasagne pasta
salt og nýmalaður pipar
Sósan
1 dós hakkaðir tómatar
1 dós Ítalía tómata passata
1/2 handfylli af ferskum basillaufum
2 – 3 msk tómatpúrra
3 dl vatn
1 kjúklingateningur
salt og nýmalaður pipar
                                   
Hitið olíuna í potti og steikið hvítlaukinn, því næst bætið þið rauðlauknum, selleríinu og sveppum saman við. Steikið við vægan hita í 1 – 2 mínútur. 
Færið grænmetið í skál og setjið nautahakkið á pönnuna og steikið vel. Kryddið nautahakkið ansi vel með salti, pipar og steinselju. 
Því næst náið þið ykkur í pott, setjið hakkið og grænmetið út í og byrjið á sósunni. Setjið allt út í sem ég nefndi hér að ofan, hrærið vel í þessu og leyfið þessu að malla við vægan hita í 15 – 20 mín. Ég læt stundum nokkur lárviðarlauf saman við blönduna og leyfið laufunum að malla með. Mér finnst þó fátt huggulegra en að dúllast í þessu, taka mér góðan tíma og leyfa sósunni að malla lengi. Kryddið kjötblönduna vel með salti og pipar, það er nauðsynlegt að smakka sig til því mér finnst alltaf eitthvað vanta. Meiri salt, meiri pipar, meiri basilika… það veit nú enginn nema við sjálf og þess vegna er algjör nauðsyn að smakka sig til. 

Hitið ofninn í 180°C. Setjið 1/3 af kjötblöndunni á botninn í eldföstu móti og setjið mozzarellaost, parmesan og spínat yfir. Raðið lasagne blöðum yfir og endurtakið leikinn, þetta lasagne var í þremur lögum. Ég lét kotasæluna aðeins yfir eitt lag. 

Mér finnst best að nota þessar lasagne plötur. 

Að mínu mati er virkilega gott að hafa kotasælu i lasagne. Rétturinn verður svolítið djúsí fyrir vikið og það líkar mér. Það er fátt betra en að fá sér bita af ljúffengu lasagne þar sem osturinn ræður ríkjum. 

Að lokum þá stráið þið mozzarella osti og parmesan osti yfir, mér finnst líka gott að setja smá salt og pipar efst. Bakið í ofninum í 35 – 40 mínútur. 

Það er virkilega gott að leyfa réttinum að kæla sig í allavega  10 mínútur áður en þið berið hann fram, hann er svakalega heitur og það er ekkert gott að borða of  heitan mat, þá borðar maður gjarnan matinn alltof hratt eða skolar honum niður með of miklu vatni því hann er sjóðandi heitur. Takið ykkur góðan tíma þegar rétturinn er tilbúin, leggið á borð, skálið í rauðvín eða í pepsí. Skiptir ekki máli hvað er í glasinu, allavega skálið. Það er að koma helgi.

Ég veit ekki með ykkur en svona og nákvæmlega svona vil ég hafa mitt lasagne, það nánast kemur á móti mér. Safaríkt og ljúffengt. Fangar augað mitt og þá er ekki aftur snúið. Það skemmtilega við réttinn er að hver og einn getur gert hann að sínum, ég nota oftast bara það sem ég á til inn í ísskáp hverju sinni. 
Berið lasagne fram með fersku salati og ef till vill hvítlauksbrauði. Rífið duglega af parmesan osti yfir og njótið, hver biti er dásemd. Það er skylda að setjast niður og njóta matarins, helst í góðum félagsskap. 
Ég vona að þið eigið dásamlega helgi framundan kæru lesendur
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *