Kjúklinganúðluréttur

Að mínu mati er nauðsyn að hefja helgina á því að fá sér góðan mat. Föstudagsmatur á að vera einfaldur , fljótlegur og ansi góður auðvitað. Mér finnst ótrúlega gott  að nostra aðeins við matinn og njóta þess að sigla inn í helgina. Maðurinn minn gaf mér ansi gott rauðvín í gær og því var drukkið eitt glas af góðu víni með matnum. Góður matur og gott er uppskrift að ansi notalegu kvöldi. 
Ég fæ sjaldan löngun í núðlur en fékk slíka löngun í gær og útbjó því kjúklinganúðlurétt. Vissulega af einföldustu gerð. Hefði ég haft tíma þá hefði ég nú dúllað meira við matinn, t.d. marinerað kjúklinginn eða búið til sósuna frá grunni. Það er nú önnur saga, en maturinn var virkilega góður og langar mig þess vegna að deila uppskriftinni með ykkur.  

Kjúklinganúðluréttur 

1 rauð paprika, smátt skorin
1 gul paprika, smátt skorin
1/2 rautt chili, fræhreinsað og smátt skorið
handfylli af söxuðum vorlauk
1/2 spergilkál, smátt skorið
nokkrir stilkar mini-maís, skornir í litla bita
nokkrir ferskir sveppir, magn eftir smekk
2 kjúklingabringur 
eggjanúðlur ca. 150 g 
sweet and sour wok sauce, einn lítill poki 
3 msk philadelphia sweetchili rjómaostur
1 bolli vatn
salt og nýmalaður pipar
steinselja, söxuð

Hitið olíu á pönnu við vægan hita, skerið kjúklinginn í litla bita og steikið í smá stund. Bætið öllu grænmetinu saman við, saltið og piprið duglega. Leyfið þessu að vera á pönnunni við vægan hita í nokkrar mínútur, passið að hræra í með jöfnu millibili. 
Þessar núðlur eru ansi góðar . Sjóðið þær samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. 

Sweet & sour sósan, hún er ansi fín og passaði vel við réttinn.
Þegar núðlurnar eru tilbúnar þá bætið þið þeim við grænmetið og kjúklinginn á pönnunni. Bætið síðan wok-sósunni, vatninu og rjómaostinum saman við. Blandið þessu öllu mjög vel saman. Kryddið til með salti og pipar, leyfið þessu að malla á pönnunni í 10 – 15 mínútur  við vægan hita.
Passið að hræra í með jöfnu millibili svo ekkert festist við pönnuna. 
Sáldrið ferskri steinselju yfir réttinn þegar þið berið hann fram 
Berið réttinn gjarnan fram með hrísgrjónum eða brauði. 
Gott glas af rauðvíni og góður matur gerir föstudagskvöld enn betra.

Hvet ykkur til þess að prufa. Ansi einfaldur og góður réttur.
Ég vona að þið eigið ljúfan laugardag og gerið það sem ykkur þykir skemmtilegt. Það er nú einu sinni helgi og þá er tilvalið að hafa það svolítið huggulegt. 
Góða helgi elsku vinir
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

1 comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *