Taco tuesday er orðinn vinsæll liður hér á heimilinu og í gær fengum við mjög góða gesti í mat og að sjálfsögðu þá var mexíkóskt þema.
Hér er uppskriftin að sumarlegu og ljúffengu kjúklinga enchiladas með mexíkóosti. Virkilega ljúffengt!
Fyrir 4 – 6
- Ólífuolía
- 1 laukur
- 1 rauð paprika
- 1 græn paprika
- 2 hvítlauksrif
- Salt og pipar
- Enchiladas kryddblanda (hægt að kaupa í pokum)
- 8 úrbeinuð kjúklingalæri
- 1 mexíkóostur
- 2 dl rifinn ostur
- Tortilla vefjur
- Salsa sósa, magn eftir smekk
- Fetaostur, magn eftir smekk
- Kóríander, magn eftir smekk
- Ferskt salsa, uppskrift hér að neðan
Aðferð:
- Hitið ofninn í 180°C.
- Skerið papriku, lauk og hvítlauk niður og setjið í eldfast mót. Hellið smávegis af olíu yfir og kryddið með salti.
- Setjið kjúklingalærin í skál, hellið olíu yfir og kryddið með enchiladas kryddblöndu. Blandið öllu mjög vel saman og hellið síðan kjúklingnum í eldfasta mótið og hrærið saman við grænmetið.
- Inn í ofn við 180°C í 35 – 40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður.
- Þegar kjúklingurinn er klár þá rífið þið hann niður og hrærið öllu vel saman.
- Fyllið tortillavefjur með kjúklingafyllingunni og stráið rifnum mexíkóost yfir, rúllið upp vefjunni og endurtakið leikinn þar til þið eruð komin með fat af ljúffengum kjúklingavefjum.
- Stráið rifnum osti yfir og ég hellti einnig smá salsa sósu yfir réttinn, setjið hann inn í ofn í smá stund eða þar til osturinn er orðinn gullinbrúnn.
- Hellið fersku salsa yfir og rífið gjarnan niður fetaost yfir réttinn áður en hann er borinn fram.
- Gott er að hafa nachosflögur og sýrðan rjóma með.
Ferskt salsa
- 12 kirsuberjatómatar
- ½ límóna
- Handfylli kóríander
- 1 mangó
- 1 stilkur vorlaukur
- Salt
- Smávegis af góðri ólífuolíu
Aðferð:
- Skerið tómata, kóríander, mangó og vorlauk mjög fínt.
- Blandið öllum hráefnum saman í skál og kryddið með salti.
- Berið fram með kjúklinga enchiladas. Njótið vel !
Njótið vel!
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir