Ég bauð vinkonum mínum í brunch í síðustu viku en eins og ég hef margoft sagt þá er brunch í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég bauð stelpunum meðal annars upp á ítalska eggjaköku en það er í raun bökuð eggjakaka sem er yfirleitt steikt á annarri hliðinni og síðan kláruð inn í ofni. Það er hægt að setja allt það sem hugurinn girnist í þessa eggjaköku en ég var með kartöflur, púrrulauk og grillaða papriku sem setti punktinn yfir i-ið. Þetta var í fyrsta sinn sem ég hef keypt grillaða papriku og ég var hálf svekkt að hafa ekki gert það fyrr, paprikurnar voru svo bragðmiklar og eru að mínu mati lykil hráefnið í þessari eggjaköku. Eggjakakan er skorin í sneiðar og gjarnan borin fram með salati og dressingu, ég var salat og einfalda salatdressingu (dijon sinnep, góða ólífuolíu, salt, pipar og smá sítrónusafa).
Ef þið eruð eggjakökufólk þá þurfið þið algjörlega að prófa þessa
Ítölsk eggjakaka bökuð í ofni
Bökuð á pönnu sem má fara inn í ofn, stærðin á pönnunni er 26cm
- Olía + smá smör
- Púrrulaukur, smátt skorinn
- 2 meðalstórar bökunarkartöflur, smátt skornar
- 1 krukka grilluð paprika (smá af olíunni líka eins og 2 msk)
- 10 Brúnegg, léttþeytt
- 100 g rifinn ostur
- Handfylli rifinn Parmesan ostur
- Salt og pipar
Aðferð:
- Hitið olíu og smjör á pönnu. (Athugið að það þarf að nota pönnu sem má fara inn í ofn)
- Látið laukinn malla í olíunni/smjörinu í smá stund eða þar til hann verður mjúkur í gegn. Bætið þá kartöflum og steikið í 1 – 2 mínútur, því næst bætið þið grilluðu paprikunum út á pönnuna. Blandið öllu vel saman og kryddið til með salti og pipar, steikið á pönnunni í 3 – 4 mínútur.
- Á meðan létt pískið þið 10 brúnegg og kryddið til með salti og pipar.
- Bætið rifnum osti saman við eggin og hellið eggjablöndunni út á pönnuna.
- Steikið á lágum hita í 4 – 5 mínútur eða þar til eggjakakan er að verða stíf og flott.
- Setjið eggjakökuna inn í ofn við 180°C í 15 – 20 mínútur eða þar til eggjakakan er stíf í gegn og gullinbrún.
- Berið eggjakökuna fram með fersku salati og stráið gjarnan rifnum Parmesan osti yfir.
Ég vona að þið eigið ljúfan sunnudag, vinkona mín er að koma til mín og við ætlum að skella okkur á Esjuna. Þannig ég þarf að drífa mig… sit hér enn á náttfötunum 😉
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.