Ítalskar kjötbollur í ljúffengri sósu


Ítalskar kjötbollur eru einfaldlega ómótstæðilegar, Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég birti uppskrift að þessum bollum.(og ekki í síðasta sinn) Ég nota yfirleitt aldrei sömu uppskrift þegar ég bý til bollurnar og þetta var í fyrsta skipti sem ég blanda nautahakki og svínahakki saman. Útkoman var dásamleg og bollurnar voru afar safaríkar og góðar. Það er mjög gott að bera þær fram með góðri sósu og  pasta, ég notaði linguine sem að mínu mati er betra með bollunum en spaghetti. Að sjálfsögðu er gott að sáldra vel af ferskum parmesan yfir bollurnar í lokin. Mér fannst óþarfi að vera með annað meðlæti með bollunum en það gæti verið gott að hafa ferskt salat og brauð með. Það er bara smekksatriði. Þetta er rétturinn sem þið ættuð að prófa um helgina kæru lesendur.

Ítalskar kjötbollur

Kjötbollur.
  • 500 g.
    Nautahakk
  • 500 g.
    svínahakk
  • 1 dl.
    brauðrasp
  • 1
    laukur, smátt skorinn
  • 3
    hvítlauksrif, marin
  • 3 msk.
    fersk steinselja, smátt söxuð
  • 1 msk.
    fersk basílika, smátt söxuð
  • 2 msk
    rifinn Parmesan ostur
  • 1 egg,
    létt pískað
  • salt
    og pipar, magn eftir smekk
  • smá
    hveiti
  • góð
    ólífuolía

Aðferð:
  1. Blandið öllum hráefnum saman með
    höndunum og búið til jafn stórar bollur úr deiginu.
  2. Veltið bollunum upp úr smá hveiti
    og leggið þær á pappírsklædda ofnplötu. Sáldrið olíu yfir bollurnar og setjið
    inn í ofn við 180°C í 10 – 15 mínútur.
  3. Þegar bollurnar eru tilbúnar þá
    setjið þið þær varlega ofan í sósuna og leyfið bollunum að malla í sósunni við
    vægan hita í 30-60 mínútur.  
  4. Sjóðið pasta sem þið viljið nota samkvæmt
    leiðbeiningum á pakkanum, ég mæli með að þið notið spaghettí eða linguini.
  5. Berið réttinn fram með rifnum
    parmesan og mikið af honum. 
Sósan
  • 2 -3 hvítlauksrif, marin
  • 1/2 laukur, smátt skorinn
  • 2 dósir hakkaðir tómatar
  • 4 dl vatn
  • 1/2 kjúklingateningur
  • 1 msk.fersk steinselja, smátt
    söxuð
  • 1 msk. fersk basilíka, smátt
    söxuð
  • 1 tsk. agave síróp
  • salt og pipar, magn eftir smekk

Aðferð:
  1. Hitið olíu við vægan hita í
    potti, steikið lauk og hvítlauk í olíunni í 1 – 2 mínútur. 
  2. Bætið öllu hinu í
    pottinn og leyfið sósunni að malla á meðan þið búið til kjötbollurnar. Mér
    finnst mjög gott að nota töfrasprotann eða matvinnsluvél til að mauka sósuna.
    Það er smekksatriði.

Njótið vel. 
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *