Þessi vika hefur gjörsamlega flogið áfram og verið mjög viðburðarík. Ég hlakka til að deila með ykkur þeim verkefnum sem eru framundan hjá mér. Það er svo ótrúlega gaman að stíga út fyrir þægindaramman og grípa tækifærin þegar þau gefast.
Það er kærkomið að komast í smá helgarfrí, fríið fer þó meira og minna í lærdóm en það er helgarfrí fyrir því. Ég ætla að elda eitthvað gott og njóta þess að vera með fólkinu mínu. Helgarmaturinn er alltaf eilítið betri. Ég ætla að deila með ykkur tveimur uppskriftum sem eiga það sameiginlegt að vera einfaldar, fljótlegar og sérlega gómsætar. Tilvalið að bjóða fjölskyldu og vinum upp á þessa rétti.
Ítalskar kjötbollur með pastasósu.
Þessi uppskrift er í miklu eftirlæti hjá mér. Ég sé Ítalska matarmenningu í hyllingum og get ekki beðið eftir því að heimsækja Ítalíu einn daginn. Þessi réttur færir okkur örlítið nær Ítalíu í huganum… Við byrjum á sósunni.
Pastasósa.
2 -3 hvítlauksrif, marin
1/2 laukur, smátt skorinn
2 dósir hakkaðir tómatar
4 dl vatn
1/2 kjúklingateningur
1 msk.fersk steinselja, smátt söxuð
1 msk. fersk basilíka, smátt söxuð
1 tsk. agave síróp
salt og pipar, magn eftir smekk
Aðferð:
Hitið olíu við vægan hita í potti, steikið lauk og hvítlauk í olíunni í 1 – 2 mínútur. Bætið öllu hinu í pottinn og leyfið sósunni að malla á meðan þið búið til kjötbollurnar.
Kjötbollur.
500 g. nautahakk
1 dl. brauðrasp
1 laukur, smátt skorinn
3 hvítlauksrif, marin
3 msk. fersk steinselja, smátt söxuð
1 msk. fersk basílika, smátt söxuð
2 msk rifinn Parmesan ostur
1 egg, létt pískað
salt og pipar, magn eftir smekk
Aðferð:
Blandið öllum hráefnum saman með höndunum. Mótið í litlar kúlur, passið að hafa þær ekki of stórar vegna þess að þá er hætta á að þær klofni þegar þær fara ofan í sósuna. Hitið olíu á pönnu og steikið bollurnar í smá stund. Látið síðan bollurnar ofan í sósuna, leyfið því að malla við vægan hita í 15 – 20 mínútur. Mér finnst best að bera bollurnar fram með spagettí en þið getið auðvitað notað hvaða pasta sem þið viljið. Sjóðið spagettíið samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Setjið spagettíið í fat og raðið síðan bollunum ofan á og hellið sósunni yfir. Rífið duglega af ferskum Parmesan osti yfir, alls ekki spara þennan dásamlega ost. Þið getið auðvitað borið réttinn fram með salati en mér finnst hann í raun bestur einn og sér með góðu brauði, helst hvítlauksbrauði.
Svo er auðvitað nauðsynlegt að gera vel við sig um helgar og bjóða upp á ljúffengan eftirrétt. Þessi súkkulaðimús er án efa uppáhalds eftirrétturinn minn, ég geri þessa mús mjög oft en ég fæ bara ekki nóg af henni. Fljótleg, einföld og ótrúlega ljúffeng! Hægt er að nota bæði ljóst sem og dökkt súkkulaði, fer bara eftir smekk hvers og eins.
Súkkulaðimús.
25 g smjör
200 g 70% súkkulaði
250 ml rjómi
3 stk. egg
2 msk. sykur
Bræðið smjör og súkkulaði saman við vægan hita í potti. Hellið súkkulaðinu síðan í skál og blandið þremur eggjarauðum saman við, blandað eggjarauðunum vel saman við súkkulaðið. Leggið súkkulaðiblönduna til hliðar. Þeytið rjóma og að því loknu bætið súkkulaðiblöndunni saman við, í þremur pörtum. Leggið blönduna til hliðar. Stífþeytið eggjahvíturnar og bætið sykrinum smátt og smátt saman við. Hrærið eggjahvítublöndunni mjög varlega saman við súkkulaðiblönduna með sleikju, setjið í glös eða skál. Kælið í lágmark 3 klst.
Skreytið súkkulaðimúsina með ferskum berjum og stráið smá flórsykri yfir.
Ég mæli eindregið með að þið prófið þessar uppskriftir og njótið vel, það er auðvitað aðal málið. Góða helgi kæru vinir.
xxx
Eva Laufey Kjaran.