Íslenskar pönnukökur með sultu og rjóma.

Tíminn hefur flogið áfram og í dag þá kveðjum við jólin. Fjölskyldan mín er farinn út til Noregs og allt jólaskrautið er komið í kassa. Það er nú alltaf erfitt að kveðja fólkið mitt en þau koma sem betur fer heim eftir nokkrar vikur aftur og ég ætla líka að drífa mig út til þeirra í heimsókn sem allra fyrst. 
Í dag fékk ég til mín góða vinkonu í heimsókn og ég ákvað að baka nokkrar pönnukökur handa okkur með kaffinu. Ég tengi pönnukökur alltaf við ömmu og mér finnst dásamlegt að finna pönnukökuilminn. Það er mikill sjarmi yfir pönnukökum og þær smakkast alltaf vel, ég vil alltaf mínar pönnukökur með rjóma og sultu.  Ég rakst á mjög einfalda uppskrift í Gestgjafanum sem ég notaði í dag og ætla að deila með ykkur. Ég hringdi að vísu fyrst í ömmu en hún er ekki með neina ákveðna uppskrift heldur dassar sig alltaf til, ég þorði nú ekki að taka þann sjéns. Kannski þegar ég verð búin að baka þær nokkuð oft þá fer ég að dassa mig áfram í bakstrinum.

Ég vona að þið njótið vel. 

Íslenskar pönnukökur 
3 dl hveiti 
1 msk sykur
5 dl mjólk
1/2 tsk lyftiduft
2 egg 
1/2 tsk vanillu extract eða dropar
30 g smjör
Aðferð:
 1. Setjið þurrefnin saman í skál og blandið vel saman, hellið 3 dl af mjólk saman við, hrærið saman í kekkjalaust deig. 2. Bætið einu og einu eggi saman við og hrærið vel. 
3. Bætið því sem eftir er að mjólkinni saman við deigið og vanillunni, blandið vel saman.
 4. Bræðið smjör á pönnukökupönnunni.
 5. Hellið smjörinu saman við deigið og blandið því vel saman við.
 6. Hellið þunnu lagi af deiginu á pönnuna og bakið pönnukökuna þar til hún er farin að þorna á yfirborðinu. Snúið pönnukökunni við og bakið kökuna þar til hún verður ljósbrún á hinni hliðinni. 
 Það er ómissandi að mínu mati að drekka heitt súkkulaði með pönnukökum. 
 Ljúffengar pönnukökur sem smökkuðust mjög vel.
Heitt súkkulaði, pönnukökur með rjóma og sultu í kaffitímanum. Afskaplega huggulegt og góð leið til þess að kveðja jólin. 
Ég vona að þið hafið átt góða helgi kæru vinir. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

4 comments

  • Kann ekki að baka eða elda fyrir mitt litla líf, en þetta heppnaðist… takk fyrir auðvelda uppskrift 🙂

  • Kærar þakkir fyrir þetta Eva Laufey. Ég bý erlendis og hef prófað nokkrar uppskriftir. Þessi var mjög góð og gekk mjög vel að steikja með venjulegri pönnu.

  • Búin að gera margar mis(vel)heppnaðar tilraunir með fjölskyldu uppskriftina – en þessi svínvirkar í hvert sinn!! Takk kærlega!

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *