Ég hef fengið talsvert af fyrirspurnum varðandi námskeið sem við Edda systir erum að halda þann 13.september og 4.október. Ef þið fylgist með mér á Instagram þá fór ég aðeins yfir námskeiðið í fljótu bragði þar í morgun (Insta stories) og þið getið hlustað á mig þar ef þið hafið áhuga.
Annars langaði mig að setja hingað inn nánari lýsingu á námskeiðinu og hvetja þær konur sem hafa áhuga að skrá sig, það er orðið stútfullt á námskeiðið þann 13.september og við bættum við dagsetningu þann 4.október og ganga skráningar frábærlega.
Lýsing á námskeiði:
Vilt þú koma þér og efninu þín vel og örugglega á framfæri? Þarftu í starfi þínu að kynna efni og koma fram opinberlega? Viltu æfa þig í að koma fram í fjölmiðlum? Viltu undirbúa þig betur fyrir fyrirlestra og ræðuhöld? Viltu fá aukið sjálfstraust til að koma fram?
Reglulega kemur upp sú umræða að konur séu ragari við að koma fram og stíga fram í fjölmiðlum en samkvæmt tölum Creditinfo eru konur í minnihluta sem viðmælendur í fjölmiðlum.
Fimmtudaginn 13.september verður haldið námskeið fyrir konur þar sem farið verður yfir helstu atriði í því að koma efni vel á framfæri í fjölmiðlum og á öðrum vettvangi. Námskeiðið verður á líflegum nótum þar sem Edda Hermannsdóttir og Eva Laufey Kjaran fara yfir góðar leiðir til árangurs og deila um leið sínum reynslusögum, góðum og slæmum.
Það sem verður meðal annars farið yfir á námskeiðinu:
• Hvernig skrifarðu grein?
• Hvernig flyturðu glærukynningu?
• Hvernig undirbýrðu og flytur ræðu?
• Hvernig undirbýrðu þig fyrir sjónvarpsviðtöl?
• Hvernig undirbýrðu þig fyrir útvarpsviðtöl?
• Hvernig undirbýrðu þig fyrir fundarstjórn?
• Hvernig undirbýrðu þig fyrir þátttöku í panelumræðum?
• Hvernig breytirðu verkefnum í viðskiptatækifæri?
Einnig verður fjallað um konur og launaviðræður og hvernig gott tengslanet getur nýst í leik og starfi.
Námskeiðið verður haldið fimmtudaginn 13. September frá kl.17-19. Boðið verður upp á léttar veitingar.
Staðsetning: Hátíðarsalur Gróttu (Hertz höllin)
Skráning í netfangið framkomunamskeid@gmail.com takið fram nafn og kennitölu.
Verð: 11.900 kr – reikningar verða sendir í netbanka.
Um Eddu og Evu Laufey:
Edda Hermannsdóttir stýrir samskiptum og greiningu hjá Íslandsbanka en hún er hagfræðingur að mennt. Edda starfaði áður sem aðstoðarritstjóri Viðskiptablaðsins þar sem hún vann markvisst að því að auka vægi kvenna í viðskiptafréttum. Hún stýrði VB Sjónvarpi en hún var einnig spyrill í Gettu betur í þrjú ár. Edda hefur á undanförnum árum stýrt fjölmörgum fundum og ráðstefnum.
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir hefur um árabil starfað við dagskrárgerð hjá Stöð 2, meðal annars að þáttunum Í eldhúsi Evu, Ísskápastríð og Allir geta dansað. Eva stýrir matarvefsíðunni evalaufeykjaran.is og hefur gefið út tvær matreiðslubækur, unnið sem blaðamaður á Gestgjafanum og fleiri verkefnum tengdum mat og matarskrifum. Eva er á lokaári í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst.
Vonandi sjáum við ykkur sem flestar!