Súkkulaðisæla – Kladdkaka með súkkulaðimús

Kladdkaka er sænsk að uppruna og nýtur mikilla vinsælda, það má líkja henni við franska súkkulaðiköku. Stökk að utan en mjúk að innan. Í gærkvöldi sofnaði ég út frá hugsunum um girnilegar súkkulaðikökur og þegar ég vaknaði í morgun klukkan sex með dóttur minni þá var það mitt fyrsta verk að baka kökuna sem ég hafði í huga. Sænsk kladdakaka með súkkulaðimús, já hún er jafn góð og hún hljómar. Í
fyrstu var ég hrædd um að hún yrði kannski svolítið þung en svo var ekki, e þið elskið súkkulaði og langar í eitthvað gott í dag þá er þetta kakan. Það
góða við þessa köku að það þarf ekki mörg hráefni og flest eigum við þau inn í skáp nú þegar.

Ingibjörg Rósa dundaði sér á meðan móðirin bakaði þennan sunnudagsmorguninn.
Sænsk kladdkaka, súkkulaðibotninn.
 • 100 smjör, brætt
 • 2 egg
 • 2,5 dl sykur
 • 1,5 dl hveiti
 • 2 tsk vanillusykur
 • 3 msk gott kakó
 • ½ tsk salt
Aðferð:
1. Hitið ofninn í 175°C (blástur).
2. Bræðið smjör í potti við vægan hita. Þeytið saman sykur og egg í smá stund eða þar til blandan verður létt og ljós.
3. Blandið hinum hráefnunum saman við og hrærið í smá stund eða þar til deigið verður silkimjúkt.
4. Smyrjið bökunarform (mér finnst best að nota smelluform en þá er mikið þægilegra að ná kökunni úr forminu).
5. Hellið deiginu í formið og bakið við 175°C í 20 mínútur.
6. Kælið kökuna
mjög vel áður en þið takið hana upp úr forminu og bætið súkkulaðimúsina
ofan á botninn.
*Formið sem ég nota er 20cm að stærð.
*Mér finnst best að baka þennan botn við blástur en ef þið notið yfir-og undirhita þá þurfið þið að hafa hærri hita t.d. 200°C.
Himnesk súkkulaðimús
 • 25 g smjör
 • 150 g súkkulaði
 • 3 egg, aðskilinn
 • 2 msk sykur
 • 2,5 dl rjómi
Aðferð:
1. Bræðið smjör og súkkulaði við vægan hita í potti, þegar súkkulaðið er bráðnað hellið því í skál og leyfið að kólna.
2. Þeytið rjóma og leggið til hliðar.
3. Stífþeytið eggjahvítur, um leið og það byrjar að freyða í eggjahvítunum bætið þið sykrinum smám saman við. Eggjahvíturnar eru tilbúnar þegar þær eru stífar og þið getið hvolft skálinni án þess að þær hreyfast.
4. Blandið eggjarauðum saman við súkkulaðið, það er mjög mikilvægt að súkkulaðið sé kalt (annars gæti þetta orði að súkkulaði-eggjahræru).
5. Blandið súkkulaði-eggja blöndunni út í marensinn og blandið rólega
saman með sleikju og næsta skref er að blanda rjómanum með sleikju.
6. Súkkulaðimúsin er klár og næsta skref er að taka súkkulaðibotninn úr forminu, setjið plastfilmu yfir formið og setjið botninn aftur í.
7. Hellið súkkulaðimúsinni yfir og geymið í kæli í lágmark 3 klukkustundir, best yfir nótt. Ég er alltaf að flýta mér og hafði ekki tíma né þolinmæði til að bíða svo ég notaði tvær matarlímsplötur sem ég leysti upp í heitu vatni og bætti þeim út í súkkulaðimúsina. Þess þarf að sjálfsögðu ekki en ef kakan á að vera stíf og fín þá er það vissulega betra.
Þessi kaka er ómótstæðilega góð og sérstalega með ferskum jarðarberjum, ég ætla að bjóða upp á þessa köku í kvöld sem eftirrétt en hún mamma er búin að bjóða okkur í humarsúpuna sína sem er alltaf svo góð, ég þarf endilega að koma þeirri uppskrift hingað inn á bloggið.
Ég vona að þið
njótið vel og eigið góðan sunnudag framundan.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *