Guðdómleg skyrkaka með hvítu súkkulaði og ferskum berjum

Ég er yfir mig hrifin af osta- og skyrkökum. Þær eru eitthvað svo „creamy“ og góðar. Ég fæ til mín svo góða gesti í mat í kvöld að ég ákvað að hafa góða köku í eftirrétt. Ég er ekki að plata ykkur þegar ég segi að þessi kaka er af einföldustu gerð, það tekur hámark 30 mínútur að búa hana til. Svo þarf hún bara að vera í kæli í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt og þá er hún tilbúin. Ég elska góðar kökur og hvað þá ef þær eru einfaldar og fljótlegar. Ég mæli svo sannarlega með að þið prófið þessa köku. Hún er virkilega góð, ég lofa ykkur því. Tilvalið að hafa hana sem eftirrétt eða þá bara í kaffitímanum. Ég er líka viss um að þessi kaka myndi nú slá í gegn í Eurovision boðum um helgina. 
Hér kemur uppskriftin. Njótið vel kæru lesendur. 
Uppskriftin er fyrir sex til átta.

Byrjum á því að mylja kexkökurnar í matvinnsluvél eða i blandaranum. Bætið smjörinu einnig saman við kexið, smjörið á að vera kalt. 
Ég notaði lausbotna pæ-form en þið getið auðvitað notað hvaða form sem er. Það er betra að nota lausbotna. Þetta form er 24×25 cm. 
Þrýstið kexblöndunni á botninn og upp með börmunum á bökunarforminu, notið bara hendurnar til þess. Það er einfaldara. 
Kælið botninn á meðan að þið útbúið fyllinguna. 
Leynivopnið í kökunni er án efa þetta dásamlega súkkulaði, hvítir súkkulaðidropar. 
Léttþeytið rjóma og leggið til hliðar. Blandið skyrinu, flórsykrinum og vanillusykrinum saman í hrærivél í örfáar mínútur. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og kælið í smá stund (en ekki of lengi, það verður að vera silkimjúkt). Hellið súkkulaðinu út í skyrblönduna og hrærið saman með sleif. Bætið rjómanum saman við í lokin og hrærið vel saman. 
Dreifið skyrblöndunni yfir kexbotninn með sleif. 

Mér finnst rosalega gott að setja fersk ber ofan á kökur, þið getið notað hvaða ber eða ávexti sem þið viljið. Jarðarber og bláber eru í mínu eftirlæti svo ég notaði þau í dag. 

Sigtið smá flórsykri yfir kökuna og rífið endilega smávegis af súkkulaði yfir. Það gerir kökuna enn betri. Hún er best ef hún fær að vera lengi í kæli. Lágmark 3 klukkustundir en mér finnst líka gott að geyma hana yfir nótt. 
Algjör draumadís. Mikið er ég orðin spennt að gæða mér á henni með fjölskyldunni minni í kvöld. 
Ég mæli með að þið prófið og njótið. 
xxx
Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Endilega deildu með vinum :)