Guðdómlegt epla- og bláberjacrumble

Í gærkvöldi ákvað ég að baka þessa einföldu epla- og bláberjaböku eftir kvöldmatinn. Það var svolítið haustlegt úti, pínu kalt og rigning.. fullkomið veður fyrir kertaljós, köku sem yljar að innan og sjónvarpsgláp. Ég var stjörf yfir þáttum sem sýndir eru á Stöð 2 sem heita Killer Women með Piers Morgan, þættirnir eru bara tveir og ég mæli með að þið leigið þá á vodinu ef þið eruð ekki búin að sjá þá. Þeir eru mjög góðir og ég mæli alveg með því að maula á einhverju góðu eins og þessari böku yfir þáttunum.

Ég notaði heilhveiti að þessu sinni og mér finnst það betra en hvítt hveiti í þessa köku, hef núna prófað hvoru tveggja og verð að segja að heilhveitið hefur vinninginn. Mylsnan verður grófari og einhvern hátt bragðmeiri. Ég mæli með að þið skellið í þessa einföldu böku, þið getið bæði bakað hana í ofni eða grillað á grillinu. Algjör snilld!

Guðdómlegt epla- og bláberjacrumble

 • 5 græn epli
 • 1 bolli bláber, fersk eða frosin
 • 1 – 1½ tsk kanill
 • 2 tsk sykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 70 g súkkulaði
 • Mylsna:
 • 80 g Kornax heilhveiti
 • 80 g sykur
 • 100 g smjör
 • 50 g kókosmjöl

 

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Flysjið eplin, fjarlægið kjarna og stilka.
 3. Skerið eplin í litla bita og dreifið eplabitunum í eldfast mót.
 4. Blandið sykri, vanillusykri og kanil saman við eplin.
 5. Saxið súkkulaði og dreifið yfir eplin.
 6. Næsta skref er að útbúa deigið sem fer ofan á eplin. Blandið heilhveiti, sykri, smjöri og kókosmjöli saman í skál og blandið saman með höndunum.
 7. Dreifið deiginu yfir eplin og bakið í ofni við 180°C í 35-40 mínútur.

 

Berið fram með vanilluís og karamellusósu.

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *