Fullkomin steik – Sous Vide nautalund með öllu tilheyrandi

Bóndadagurinn er á morgun og því er tilvalið að elda eitthvað gott annað kvöld eins og til dæmis þessa dýrindis nautalund sem ég bauð foreldrum mínum upp á um síðustu helgi. Ég er ekki frá því að þetta hafi verið besta nautalund sem við höfum smakkað, nú er ég ekki að lofsama sjálfa mig þar sem ég notaði Sous Vide tækið og það gerir kraftaverk. Ég er að segja ykkur það satt! Fullkomið naut með rótargrænmeti, kartöflumús og heimsins bestu rauðvínssósu sem ég fæ gjörsamlega ekki nóg af.

Sous Vide nautalund

Fyrir 4

1 kg nautalund (ég miða við ca. 200 – 250 g á mann)
Salt og pipar
Smjör
Aðferð:

  1. Fyllið stóran pott af vatni, setjið sous vide tækið út í pottinn og stillið á þann hita sem þið viljið, í þessu tilfelli stillti ég hitann á 55°C.
  2. Skerið kjötið (ef þið eruð með stóra lund) í 2 bita og kryddið til með pipar, ég sleppti því að setja salt en það var mælt með því. Setjið kjötið í plastpoka sem opnast ekki t.d. IKEA pokarnir sem hægt er að renna fyrir og nota aftur og aftur. Það er líka hægt að kaupa sérstaka vél sem vakúmpakkar kjötinu og það á að vera besta leiðin en það er gott og blessað að setja þá í poka með góðu loki en passið að lofttæma pokana vel áður en þeim er lokað.
  3. Setjið pokana ofan í vatnið þegar það hefur náð þeim hita sem þið óskið og eldið í 4 klst.
  4. Þegar kjötið er tilbúið þá er gott að þerra það aðeins, krydda með salti og meiri pipar ef þið viljið og steikja upp úr smjöri í smá stund eða þar til kjötið er brúnað á öllum hliðum.
  5. Leyfið kjötinu að hvílast í lágmark 10 mínútur áður en þið skerið það í sneiðar.

Parmesan kartöflumús

800 g bökunarkartöflur
100 g sellerírót
1 dl rjómi
60 g smjör
50 g rifinn parmesan ostur
Salt og pipar, magn eftir smekk
Aðferð:

Afhýðið kartöflur og sellerírót, sjóðið í vel söltu vatni þar til hvort tveggja er orðið mjúkt.
Hellið vatninu af og bætið rjómanum, smjörinu, nýrifnum parmesan ostinum saman við og stappið með kartöflustöppu þar til þið náið þeirri áferð sem þið kjósið.
Bragðbætið með salti og pipar.

Rótargrænmeti

4 -5 Regnbogagulrætur
1 sellerírót
1/2 sæt kartafla
6 – 8 sveppir
1 msk smátt söxuð steinselja
Salt og pipar
Ólífuolía
Aðferð:

Skerið grænmetið smátt og setjið í eldfast mót.
Hellið um það bil matskeið af olíu yfir og kryddið til með salti og pipar, bíðið með að setja smátt saxaða steinselju þar til í lokin.
Bakið við 150°C í 35 mínútur.

Rauðvínssósa

Ólífuolía
1 laukur
2 gulrætur
5 sveppir
1 stk anísstjarna
8 piparkorn
4 dl nautasoð
3 dl rauðvín
1/3 dl sojasósa
100 g smjör
Aðferð:

Skerið lauk, sveppi og gulrætur í litla bita, steikið upp úr olíu í smá stund.
Bætið anísstjörnu, piparkornum, rauðvíni, nautasoði og sojasósu út í pottinn og sjóðið þar til það eru ca. 2 dl eftir og takið soðið af hitanum, sigtið sósuna og bætið því næst smjörinu saman við í nokkrum pörtum.
Berið sósuna strax fram!

 

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *