Föstudagspizza með kjúkling

Í dag er föstudagur og því tilvalið að gera vel við sig og baka gómsæta pizzu í kvöld. 
Ég prófaði mig áfram með kjúkling, BBQ sósu og rauðlauk í þetta sinn. Ég smakkaði svipaða pizzu hjá vinkonu minni fyrir nokkrum árum og hef eiginlega ekki hætt að hugsa um hana síðan, svo ég ákvað að prófa. Pizzan kom bara vel út og smakkaðist ansi vel. 



Pizza með BBQ kjúkling 

Speltbotn
250 g grófmalað spelt
1 tsk lyftiduft
1 tsk sjávarsalt
2 tsk kryddblanda (oreganó, basilika ofl.)
1 msk ólífuolía
200 g volgt vatn
Blandið saman spelti, lyftidufti, kryddblöndunni og saltinu. Bætið síðan volgu vatni og ólífuolíunni saman við og hnoðið. Stráið smá hveiti á borðið og fletjið deigið þunnt út. Það er líka gott að setja fyrst bökunarpappír svo deigið rifni nú ekki þegar þið setjið það í ofnskúffu (hef lent nokkrum sinnum í því) . Þá er deigið tilbúið og þið getið byrjað að dúllast við pizzugerð. 

BBQ kjúklingur 

2 kjúklingabringur
5 – 6 msk Honey Hickory BBQ sósa
Rauðlaukur
Salt og nýmalaður pipar
Ólífuolía
Skerið kjúklingabringurnar í litla bita, hitið olíu á pönnu og setjið kjúklinginn á pönnuna. Steikið í smá stund við vægan hita, bætið rauðlauknum og BBQ sósunni saman við. Leyfið þessu að malla í 5 – 7 mínútur, passið að hræra af og til í þessu. Stráið salti og nýmöluðum pipar yfir að vild! 
Setjið kjúklingablönduna á speltdeigið, stráið ferskum mozzarella ost yfir og inn í ofn við 180°C í 12 – 15 mínútur, eða þar til skorpan er orðin stökk og osturinn bráðnaður. 
Skerið í sneiðar og berið strax fram. Ég mæli með að gera einfalt salat með pizzunni, klettasalat, kirsuberjatómatar og ferskur mozzarella gera pizzuna enn betri.

Fátt betra en góð pizza á góðu kvöldi. 
Ég vona að þið eigið góða helgi 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

2 comments

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *