Epla crumble bollakökur
Helgarnammið að þessu sinni eru þessar dásamlegu eplabollakökur. Þær eru svakalega góðar einar og sér, en nýbakaðar með ís eða rjóma eru þær algjört dúndur. Mér finnst eplakökur agalega góðar og ilmurinn um heimilið verður svo yndislegur. Epli og kanill fara náttúrlega sérlega vel saman.
Uppskrift.
280 gr. Hveiti
1 tsk. Lyftiduft
1 tsk. Kanill
½ tsk. Salt
½ tsk. Vanillusykur
115 gr. Púðursykur
1 stórt epli (Ég notaði grænt epli)
2 Egg
85 gr. Smjör
250 ml. Mjólk
Aðferð.
Við byrjum á því að bræða smjörið og leggjum það síðan til hliðar í smá stund. Sigtum saman hveiti, vanillusykur, kanil, lyftiduft og salt. Skerum eplið í litla bita, bætum svo eplabitunum og sykrinum saman við hveitiblönduna og blöndum vel saman.
Tökum okkur aðra skál og pískum eggin léttilega, bætum mjólkinni og smjörinu saman við eggin og hrærum vel saman.
Blöndum síðan eggjablöndunni saman við hveitiblönduna og hrærum í 2 – 3 mínútur í hrærivél.
Næsta skref er að útbúa „crumble“ . Mér finnst það yndislega gott, þið getið auðvitað sleppt því og útbúið eitthvað gott krem í staðinn en að mínu mati passar þetta „crumble“ einstaklega vel saman við þessar bollakökur.
Crumble.
50 gr. Hveiti
½ tsk. Kanill
35 gr. Smjör
25 gr. Sykur
Aðferðin er sú að við sigtum saman hveiti og kanil. Skerum smjörið í litla bita, blöndum sykrinum og smjörinu saman við hveitiblönduna og blöndum þessu vel saman með höndunum. Þar til þetta verður orðið ansi fíngert. Þá er bara að láta deigið í bollakökuform og strá crumble-blöndunni yfir kökurnar. Inn í ofn við 190°C í 20 mínútur.
Hráefnið í bollakökurnar.
Eggin, mjólin og smjörið pískað léttilega saman.
Hveitiblandan og eplin.
Eggjablöndunni bætt saman við hveitiblönduna.
Tilbúið og dásamlegt!
Crumble hráefnið.
Tilbúnar að fara í ofninn.
Nýbakaðar með ís. Mmmm, yndislegt. Ég ætla að fá mér aðra!
Njótið og vonandi prufið þið að baka þessar kökur.
Góða helgi!
xxx
Eva Laufey Kjaran