Brúðkaupsterta

Anna Margrét vinkona mín giftist unnusta sínum honum Einari um síðustu helgi og fékk ég þann heiður að baka brúðkaupstertuna. Þetta er í annað sinn sem ég baka brúðkaupstertu en ég hef áður bakað fyrir systur mína. Mikil ósköp finnst mér þetta skemmtilegt og auðvitað pínu stressandi á sama tíma þ.e.a.s. vegna þess að ég vill auðvitað senda frá mér eins góða köku og möguleiki er á. Ég ákvað að baka góða súkkulaðiköku og skreyta hana með hvítu súkkulaðikremi, það er ávísun á glaða gesti. Undanfarið hef ég verið með æði fyrir blómaskreytingum og marengsskrauti, og útkoman var eins og þið sjáið á myndinni fyrir ofan. Falleg blóm setja ótrúlega fallegan svip á kökuna.
Súkkulaðibotnar
Ég geri þessa súkkulaðibotna mjög oft og ég er alltaf jafn ánægð, þeir eru fremur dökkir og lyfta sér mjög vel. Fékk þessa uppskrift hjá Eddu systur minni fyrir nokkrum árum.
Þetta er tvöföld uppskrift og miðast við fjögur jafn stór form (best er að gera hana í tveimur pörtum en þið sjáið hér að neðan hvaða og hversu mikið af hráefni þið þurfið)
6 bollar Kornax hveiti (Amerísk mæling, 1 bolli = 2,4 dl)
4 bollar sykur
6 Brúnegg
4 bollar AB mjólk
2 bollar bragðdauf olía
10 msk kakó
4 tsk lyftiduft
2 tsk matarsódi
4 tsk vanilludropar eða sykur

Aðferð:

Blandið öllum hráefnum saman í skál, hrærið í nokkrar mínútur eða þar til deigið verður slétt og fínt. Hellið deiginu í smurð bökunarform og bakið við 180°C í 25 – 30 mínútur. Það er gott ráð að stinga hníf í kökuna eftir 25 mínútur og ef hnífurinn kemur hreinn upp úr er kakan klár en annars þarf hún lengri tíma. Ofnar eru auðvitað eins misjafnir eins og þeir eru margir.

Það er mikilvægt að leyfa kökunni að kólna alveg áður en hún er skreytt með kreminu.
Hvítt súkkulaðikrem
600 g smjör (mikilvægt að nota smjör en ekki smjörlíki)
2 pk. flórsykur (hver pakki er 500 g)
4 msk rjómi
2 msk vanilla extract eða sykur
400 g hvítt súkkulaði, brætt
Aðferð:
1. Þeytið smjörið í smá stund eða þar til það er orðið mjúkt og fínt.
2. Bætið flórsykrinum saman við og tveimur matskeiðum af rjóma, þeytið mjög vel og stoppið að minnsta kosti tvisvar og skafið meðfram hliðum og haldið áfram að þeyta.
3. Eftir nokkrar mínútur bætið þið vanillu saman við og hvíta súkkulaðinu sem þið bræðið yfir vatnsbaði. Þeytið áfram þar til kremið verður silkimjúkt og fallega hvítt.
Eins og þið sjáið hér að ofan þá er þetta fremur stór uppskrift að kremi svo það er best að gera hana í tvennu lagi, en ég geri það sama og með kökuna hér að ofan ég tel upp þau hráefni og hversu mikið þið þurfið af þeim svo þið vitið nákvæmlega hvað þarf í kökuna.
Smyrjið kreminu á milli botnanna og skreytið hana síðan með kreminu. Eins og þið sjáið þá er einn hlutinn aðeins minni en ég einfaldlega skar meðfram kökunni og þannig varð hún minni, sumir eiga form sem eru minni og þá er tilvalið að nota þau. Best er að skreyta kökurnar í sitthvoru lagi og leggja síðan minni hlutann ofan á þann stærri. Skreytið svo kökuna gjarnan með fallegum blómum og marengshnöppum.

 

 

Ég var afar ánægð með útkomuna og brúðhjónin voru það sem betur fer líka, sem var nú fyrir öllu.
Brúðkaupið þeirra var dásamlegt og ég hef sjaldan skemmt mér eins vel.
Ég vona að þið njótið vel og sjáið hvað það er einfalt að setja saman fallega brúðartertu.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *