Brúðkaupið okkar – Veislusalurinn

Ég ætlaði að vera löngu búin að setja inn færslu um brúðkaupið okkar Hadda og ég hugsa að ein færsla sé alls ekki nóg, svo ég skipti þessu niður í nokkrar færslur. Ég hafði mjög gaman af því að skoða myndir og undirbúning hjá öðrum fyrir stóra daginn okkar og  ég vona að þið hafið gaman af þessu hjá mér – það er nú aðal málið 🙂
Fyrsta skrefið var auðvitað að velja dagsetningu – eða svona fyrir utan skrefið að ákveða að gifta sig. Við ákváðum að gifta okkur þann 23.júlí og þegar dagsetningin var komin á hreint þá var næsta skref að velja kirkju. Akraneskirkja varð fyrir valinu en það kom í rauninni aldrei önnur kirkja til greina, við erum bæði fædd og uppalin á Akranesi og berum sterkar taugar til kirkjunnar okkar. Við hringdum strax og bókuðum kirkjuna, það er mikilvægt atriði að bóka kirkju með góðum fyrirvara og strax í kjölfarið að panta sal. Eftir mikla leit að hinum fullkomna sal, bæði á Akranesi og í Reykjavík þá kolféllum við fyrir Hlégarði sem er staðsettur í Mosfellsbæ. Hlégarður var nákvæmlega það sem við leituðum að og uppfyllti okkar kröfur er varðar „hinn fullkomna sal“. Hlýlegur, bjartur, svolítið gamaldags og rúmgóður veislusalur með mikinn sjarma. Það er hægt að opna út í garð sem er dýrðlegur yfir sumartímann og þar er stór pallur sem kom sér vel fyrir gesti að kíkja út í góða veðrið og þegar leið á kvöldið var öllum hrúgað út í kónga dans. Á meðan allir voru úti var salurinn hreinsaður fyrir dansleik en hljómsveitin Stuðlabandið hélt stuðinu gangandi frameftir nóttu og ég get ekki mælt nógu mikið með þeirri hljómsveit en þeir spila svo skemmtilega tónlist og það var hressandi sveitaballafílingur yfir þessu.

Hlégarður var þess vegna eins og ég hef sagt algjörlega fullkominn fyrir stóra daginn okkar.

Fríða vinkona mín sá um blómaskreytingarnar frá a – ö og án hennar hefði salurinn aldrei verið jafn fínn – blómin skipta mjög miklu máli og gerðu salinn svo hlýlegan. Við fengum krukkur í láni úr öllum áttum, svo ég keypti ég skraut af vinafólki okkar sem gifti sig stuttu áður þannig við þurftum lítið að föndra sjálf.

Hæfileikaríka vinkona mín hún Vera Líndal hannaði boðskortin og matseðilinn, það var í sama stíl og við vorum ekkert lítið ánægð með hvoru tveggja.

Við leigðum stólaáklæði hér  (ekki auglýsing, heldur eingöngu vinsamleg ábending á góða þjónustu og flott áklæði). Það var ekki planið að leigja áklæði en tveimur dögum fyrir stóra daginn datt ég inn á þessa síðu og skoðaði myndir af svona áklæðum og ég varð að fá þau, sendi þeim póst og þau áttu sem betur fer til áklæði sem við leigðum og þetta gerði mikið fyrir salinn. Hann varð enn bjartari og fallegri fyrir vikið. 

Eins og með margt annað þá var ég ekkert búin að huga að sætaskipan eða hvernig ég ætlaði að setja skipulagið upp á vegg , þá kom það sér ansi vel að eiga frábærar vinkonur sem sáu um þetta. haha 🙂

Vinir og fjölskylda eiga auðvitað mikið inni hjá okkur en öll hjálpin var ómetanleg. Við fengum húsið viku fyrir stóra daginn og gátum þess vegna dundað okkur út vikuna að skreyta. Það er algjört atriði að þiggja hjálp og það gerir ferlið enn skemmtilegra – við áttum ansi góða daga með fólkinu okkar þarna inni þessa vikuna, með tilheyrandi stressi og því sem fylgir að koma upp öllu í tæka tíð.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *