Brjálæðislega góð Oreo ostakökubrownie

Á sunnudögum er tilvalið að gera vel sig og baka góða köku, eins og þið hafið eflaust tekið eftir hér á blogginu þá leiðist mér ekki að baka og mig langar að deila með ykkur uppskrift að ómótstæðilegri köku sem ég bakaði um síðustu helgi. Hún er algjört sælgæti og ég á eftir að baka hana mjög oft. Ég elska súkkulaðikökur og ég elska ostakökur, sú ást minnkaði ekkert þegar þeim er blandan saman í eina köku sem ég þori að veðja að þið eigið eftir að elska. Nú er um að gera að hendast út í búð eftir nokkrum hráefnum og baka Oreo ostaköku fyrir fjölskylduna á þessum fína sunnudegi.

 

Oreo ostakökubrownies

Brownies uppskrift:
 • 150 g smjör
 • 250 g súkkulaði t.d. suðusúkkulaði
 • 200 g sykur
 • 2 stór egg
 • 100 g KORNAX hveiti
 • 1 tsk vanillusykur
 • 2 msk kakó
 • 6 – 8 Oreo kexkökur
Karamellufylling
 • 700 g rjómaostur (1 1/2 askja frá MS)
 • 2 msk rjómi
 • 2 msk flórsykur
 • 12 OREO kexkökur
Súkkulaðikrem ofan á:
250 g suðusúkkulaði
Aðferð: 
 • Hitið ofninn í 170°C (blástur).
 • Bræðið smjör við vægan hita, saxið súkkulaðið og bætið því við smjörið og leyfið því að bráðna í smjörinu. Takið pottinn af hellunni og leyfið súkkulaðiblöndunni að kólna.
 • Þeytið saman egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós. Bætið vanillu, hveiti og kakó saman við og hrærið þar til deigið er silkimjúkt. Í lokin hellið þið súkkulaðiblöndunni við og blandið vel saman.
 • Hellið deiginu í pappírsklætt form (20×20), brjótið Oreo kökurnar eða setjið þær í heilu lagi ofan í deigið. Bakið við 170°C í 30 mínútur. Það er mjög mikilvægt að leyfa kökunni að kólna alveg í forminu. (best að setja hana í kæli)
 • Á meðan kakan er í kæli hrærið þið saman rjómaosti, rjóma og flórsykri. Það er gott að hafa rjómaostinn við stofuhita en þá er þægilegra að hræra hann. Þegar blandan verður létt saxið þið niður OREO kökur og blandið við með sleikju. Dreifið blöndunni yfir kalda brownies köku og inn í ísskáp á ný. Ostaköku blandan þarf að vera köld og stíf er súkkulaðikremið fer yfir.
 • Bræðið mjólkursúkkulaði yfir vatnsbaði og hellið yfir kökuna í lokin. Kælið og þegar súkkulaðið er orðið hart þá er kakan tilbúin, skerið hana í bita og berið strax fram.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

 

Öll hráefnin sem voru notuð í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *