Í kvöld var kökuklúbbur svo ég setti í eina skyrköku.
Uppskrift
1 og hálfur pakki af dökku LU kexi.
ca. 200 gr. smjör
Kexið er vel mulið og smjörið er brætt og síðan bætt saman við. Tekur smá stund að mylja kexið, en það tekst að lokum 🙂
Ég byrjaði á því að þrýsta þessu vel í formið og setti í frysti um það bil 30 mín.
1/2 líter rjómi
1 stór dós af vanillu skyri og ein lítil. (Kea-skyr vanillu)
1x vanillustöng
1 tsk. vanilludropar
Rjóminn er þeyttur sér og ég þeyti skyrið örlítið sér., ég setti korn úr einni vanillustöng saman við skyrið og pínu vanilludropa. (ég vil hafa mína köku vel vanilluaða)
Síðan er rjómanum og skyrinu blandað varlega saman.
Þegar að kex-formið er komið úr frysti þá lætur maður blönduna varlega ofan í formið og inn í ísskáp í 3-4 klst.
Berjablandan. Hún er nú ansi einföld. Helst hefði ég viljað fersk ber en ég þræddi búðir bæjarins og þau voru ekki að finna nema bláberin.
En ég notaði einn poka af berjablöndu, frosin ber.
Hitaði pott með pínu smjeri bara rétt til þess að gylla berin og þar næst bætti ég einni vanillustöng saman við og var þá búin að skafa fræin og bæta þeim saman við sömuleiðis. Svo bætti ég við 2 tsk af sykri. Smakkaði mig svo bara áfram þar til ég var orðin sátt og sæl með blönduna.
Blandan sett ofan á skyrkökuna og fersk bláber í lokin. Svo hitaði ég hvítt súkkulaði og hellti smá yfir. Setti nokkrar línur af hvítu súkkulaði á bökunarpappír inn í ísskáp í nokkrar mín sem ég notaði síðan sem fallegt skraut. Líka ansi bragðgott 🙂
Mikil ósköp ætla ég að vera lengi að skrifa eina uppskrift. Ég er mjög líklega að flækja málin. En kakan var góð og það er nú fyrir öllu.
Njótið!