Mexíkósk matargerð og yndislegir vinir.

Ó hvað það var gaman í gærkvöldi. Nokkrar vinkonur mínar komu til mín og makar þeirra. Við elduðum saman og höfðum það virkilega huggulegt. Mexíkósk matargerð og skemmtilegheit einkenndu kvöldið.
Ég og Agla vinkona mín vorum búnar að horfa á svo marga gómsæta matreiðsluþætti um mexíkóska matargerð að við urðum að prufa. 

Heimalagaðar Tortillur
500 gr. Hveiti
3 1/2 dl. Heitt vatn
1 1/2 tsk. Salt
5 msk. Olía
Blandið öllum hráefnum saman, vatninu er bætt smám saman við. Hnoðið vel í 5 – 8 mínútur.
Deigið er tilbúið þegar að það er mjúkt viðkomu. 
Svo er bara að rúlla deiginu í lengju og skera í 12 bita.
Stráum hveiti á borðið og fletjum bitana út þar til þeir verða í laginu eins og tortillakökur. 
Setjum kökurnar til hliðar og byrjum á Enchilada réttinum.

Ég myndi mæla með því að byrja á tortilla kökunum, fremur tímafrek vinna en svo sannarlega þess virði. 

Enchilada Sósa
Þessi uppskrift miðast fyrir 6- 8 manns. 
3 Græn Chili
1 1/2 Laukur
4 Hvítlauksgeirar
1 tsk. Oreganó
1/2 tsk. Chili 
1/2 tsk. Kúmin
2 Dósir saxaðir tómatar
Allt sett í matvinnsluvél þar til þetta verður orðið að góðu mauki. 
Hellum þessu svo á pönnu og látum malla í smá stund. 
Bætum  tveimur dósum af sýrðum rjóma saman við, sósan er svakalega sterk á þessum tímapunkti en á eftir að vera fullkomin með hakkinu seinna meir. 

Þá ætlum við að steikja hakk og grænmeti.
Ca. 1 kg. Nautahakk (Líka hægt að nota kjúkling eða fisk t.d.)
2 Rauðar paprikur
1 Græn paprika
1 Dós gular baunir
1 Rauðlaukur
500 gr. Cheddar ostur
Skerum grænmetið í litla bita.
Setjum smá oliu á pönnu og byrjum á því að steikja grænmetið.
Eftir 2 – 3 mínútur bætum við hakkinu út í. Sáldrum smá salti og pipar yfir  og blöndum þessu vel saman.
Á meðan að hakkið er að steikjast þá getum við farið að steikja tortilla kökurnar.

Við ætlum að þurrsteikja tortillurnar. Um leið og það myndast loftbólur í deigið á pönnunni þá á að snúa þeim við, þær eru ótrúlega fljótar að steikjast, eiga rétt að brúnast.
Geymið tortillurnar undir röku viskustykki svo þær harðni ekki.
Sósan, hakkið og tortillurnar tilbúnar. Þá eigum við bara eftir að rífa niður cheddar ostinn og setja í form. 
Við þurfum stórt eldfast mót.

Setjum sósu í botninn. Tökum eina og eina tortillu í einu, byrjum á því að bleyta kökurnar í sósunni og setjum þær síðan í eldfasta mótið. Setjum hakk, ost og sósu inn í hverja tortillu og rúllum þeim upp.
Við gerðum átta fylltar tortillur. Hellum síðan restinni af sósunni yfir og þekjum réttinn með úrvals cheddar osti.
Inn í ofn við 180°C í 35 – 40 mín.

Guacamole

2 Mjúkar lárperur
Safi af 1 súraldni
1 Rautt chili (Fræhreinsað)
Handfylli af ferskum Kóríander, saxaður.
2 Hvítlauksgeirar
1 Rauðlaukur
3 Tómatar
Notið teskeið til að taka kjötið úr lárperunni og setjum í matvinnsluvélina ásamt rauðu chili, hvítlauknum og lime safanum. Blönduð þessu mjög vel saman, þegar að þetta er orðið að fínu lárperumauki þá bætum við kóríander saman við og blöndum í 1 mínútu til viðbótar.
Söltum og piprum eftir smekk.

  Færum maukið í aðra skál og bætum söxuðum lauk og tómötum saman við. Það er auðvitað líka hægt að setja tómatana og laukinn í matvinnsluvélina en mér finnst betra þegar að það er svolítið gróft.
Hrærið aftur með sleif þar til allt hefur blandast vel. 


Eva og Fríða yndislegu.
Cheddar osturinn gómsæti.

Ferskt salsa
3 Tómatar
1/2 Rautt chili (Fræhreinsað) 
1/2 Laukur
1 msk. Sítrónusafi
1 msk. Ferskt saxað kóríander
Dass af Tabasco sósu og salti. 
Grænmetið skorið smátt niður og þessu blandað vel saman. 

Nachos 
Tortillakökur
Sólblómaolía
Salt
Skerið hverja tortillaköku í sex bita. Setjum síðan olíu í pott og hitum vel. Við getum athugað hvort að olían sé tilbúin með því að setja smá tortillubita út í,  ef bitinn flýtur og kraumar í olíunni þá er olían tilbúin.
Setjum nokkra bita í einu, mjög varlega.
Snúum þeim við, þær verða gylltar og stökkar eftir smá stund svo maður þarf að vera ansi fljótur. 
Setjum þær svo á eldhúspappír og stráum maldon salti yfir. 
Stökkar og dásamlegar. 
Skvísurnar mínar klárar með fordrykk sem að Agla gerði handa okkur, ótrúlega góður.

Bragðmikið og dásamlegt!

Djúpsteiktir bananar og djúpsteiktur ís með mars sósu.
Þetta er svo sannarlega uppáhaldið mitt af kvöldinu. Jeremías eini hvað þetta kom mér á óvart, með því svakalegra sem ég hef smakkað. Þvílík dásemd!!
Uppskrift kemur í vikunni. 
Mjög ánægjuleg kvöldstund með bíóklúbbnum, vantaði að vísu hann Stefán okkar. En hann bætir okkur það upp með Ítalskri veislu á Baróns við fyrsta tækifæri. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)