Ég og vinir mínir héldum babyshower fyrir vinkonu okkar í ágúst. Vinkona mín átti von á stúlku sem þýddi að bleikt þema réð ríkjum í veislunni eins og sjá má á þessum myndum. Babyshower eða gjafaveislur eru veislur sem haldnar eru til heiðurs tilvonandi mæðrum. Líkt og nafnið gefur til kynna þá er hugmyndin með slíkri veislu að móðirin tilvonandi sé böðuð í gjöfum. Fáar veislur eru eins skemmtilegar þar sem vinirnir leggja allir hönd á plóg til þess að undirbúa veislu fyrir vinkonu sem á von á sínu fyrsta barni.
Mikil stemmning skapast og eftirvænting ríkir í vinahópnum eftir litla krílinu. Oftar en ekki snýst umræðan um taubleyjur, ungbarnasund og það sem viðkemur barninu og vinkonur skipast á ýmsum sniðugum ráðum.
Litlar samlokur
Það er nauðsyn að bjóða upp á brauðmeti sem er ekki sætt með öllum hinum sætu kræsingunum. Litlar samlokur henta svo sannarlega vel í veislur. Þær eru ansi fallegar og sérlega bragðgóðar.
Hér eru tvær hugmyndir að fyllingum í litlar samlokur. Notið gott samlokubrauð, helst alveg hvítt. Leggið brauðsneiðar saman með fyllingu á milli og skerið skorpuna utan af, skerið samlokurnar í fjóra bita í kross.
Fylling 1: Camenbert, klettakál, rautt pestó og kirsuberjatómatar.
Fylling 2: Hunangsskinka, ostur, dijon-sinnep, klettakál og rjómaostur.
Þessir skór eru svo ótrúlega krúttlegir.
Bleikt límonaði
Ansi svalandi, stelpulegur og skemmtilegur drykkur sem hentar vel sem fordrykkur.
1/2 l vatn
1 dl sítrónusafi
1/2 l trönuberjasafi
1-2 msk. agave síróp
1/4 l rauður kristall plús
Blandið öllu nema kristal vel saman, hrærið vel í og setjið í könnu. Hellið blöndunni í glös og fyllið upp með kristal. Fallegur og ljómandi góður drykkur.
Bleikur draumur
Þar sem það var nú lítil stelpa á leiðinni hjá vinkonu okkar þá var nú tilvalið að baka bleikan draum. Þessi kaka er reglulega góð með hindberjakremi á milli og hvítu súkkulaðikremi ofan á. Það er fallegt að skreyta kökuna með rósamynstri og sömuleiðis að dreifa ferskum rósablöðum á kökudiskinn.
HÉR sjáið þið hvernig þið gerið rósir á köku.
Botnar:
115 g smjör, við stofuhita
450 g sykur
435 g hveiti
1 tsk salt
3 tsk lyftiduft
3 1/2 dl ískalt vatn
2 tsk vanilla extract eða vanilludropar
4 eggjahvítur
bleikur matarlitur
Hitið ofninn í 180°C. Þeytið sykur og smjör þar til blandan verður létt og loftkennd. Sigtið hveiti, salt og lyftiduft saman a.m.k. þrisvar sinnum, bætið saman við eggjablönduna og blandið vel saman. Bætið vatni, vanillu og bleikum matarlit út í. Stífþeytið eggjahvítur og blandið þeim síðan varlega saman við deigið með sleikju þar til deigið verður samfellt og kekkjalaust. Smyrjið tvö kökuform, skiptið deiginu á milli þeirra og jafnið það út. Bakið botnana í 30-35 mínútur. Takið formin út úr ofninum og látið þá kólna dálítið áður en þeim er hvolft á bökunargrind. Leyfið botnunum að kólna alveg áður en fylling og krem er sett á þá.
Hindberjakrem á milli
4 dl rjómi
1 msk flórsykur
100 g hindber
Þeytið rjóma og bætið flórsykri saman við í lokin, merjið berin saman með gaffli og bætið maukinu rólega saman við rjómann með sleikju. Smyrjið kreminu á milli botnanna.
Hvítt súkkulaðikrem. Uppskrift finnið þið HÉR þið þurfið að tvöfalda uppskriftina til þess að skreyta bleika drauminn. Það þarf svolítið mikið krem á þessa dásemd.
Kakan er svo sannarlega augnyndi og bragðast ansi vel. Hún er sérlega góð með þeyttum rjóma.
Litlu atriðin skipta nú miklu máli.
Kökupinnar
Kökupinnar eru algjör augnyndi og henta bæði sem borðskraut og veitingar.
1 ljós kökubotn
4 msk. vanillubúðingur, einnig má nota venjulegt kökukrem
150 g hvítt súkkulaði, brætt við mjög vægan hita yfir vatnsbaði
kökupinnar
matarlitur
skraut eftir smekk
Tætið kökubotn niður í skál og bætið vanillubúðingi saman við. Það getur verið að þið þurfið meiri búðing eða krem, notið eins mikið af búðingnum og þarf til að búa til þykka blöndu. Mótið litlar kúlur úr blöndunni þegar hún er orðin hæfilega þykk, takið kúfaða teskeið af blöndunni og mótið fallega kúlu úr því.
Raðið kúlunum á disk. Bræðið svolítið af súkkulaði, bara nokkur grömm og dýfið toppnum á pinnunum ofan í, stingið þeim svo inn í kúlurnar.
Geymið kökupinnana í frysti í ca. 15 mínútur. Hitið súkkulaði yfir vatnsbaði á meðan, hjúpið svo kúlurnar með bræddu súkkulaði og skreytið eftir smekk. Að þessu sinni var bleikum matarlit bætt við hvíta súkkulaðið þar sem bleikt þema réð ríkjum.
Hekla og Edit, glæsilegar mæðgur.
Fríða hélt á Rúrik sem er yngsti prinsinn í hópnum á meðan Hekla steig sín fyrstu skref.
Þessi krútt eru svo dásamleg. Elsku Hekla og Rúrik minn á spjallinu.
Einlæg, falleg og öðruvísi veisla. Sterk hefð er fyrir veislum af þessu tagi í Bandaríkjunum og við hér á landi ættum að taka Kanann til fyrirmyndar. Virkilega skemmtilegt.
Hvet ykkur eindregið til þess að halda babyshower ef það er von á kríli í vinahópnum. Svo hvet ég ykkur auðvitað til þess að prufa uppskriftirnar sem eru hér fyrir ofan, hvort sem þið haldið babyshower eður ei. Það er alltaf tilefni fyrir góðar kökur og allskyns góðgæti.
xxx
Eva Laufey Kjaran