Síðastliðinn fimmtudag dæmdi ég í Íslandsmeistarakeppni barþjóna, þar bragðaði ég á mörgum ótrúlega góðum kokteilum og það var ansi skemmtilegt að sjá mismunandi kokteila og metnaðurinn var mikill hjá barþjónunum. Það skapar oft skemmtilega stemningu að bera fram fallegan og frískandi drykk í boðum, að mínu mati þurfa þeir ekkert endilega að vera áfengir. Á meðan ég var ólétt fékk ég mér oft góðan kokteil með vinkonum mínum, óáfenga og mjög góða. Ég mæli með að þið prófið að gera kokteil heima við, það getur verið mjög skemmtilegt. Í bókinni minni Matargleði Evu er að finna uppskriftir að nokkrum ljúffengum kokteilum og hér kemur ein uppskrift sem er í mínu uppáhaldi. Ástaraldin mojito, suðrænn og seiðandi.
Mojito
2 – glös
- 4 límónur
- 20 myntulauf, og fleiri til skreytingar
- 8 tsk hrásykur
- 8 cl ljóst romm (má sleppa)
- 4 ástaraldin eða fleiri til skreytingar
- sódavatn eða sprite
- mulinn klaki
Aðferð: Skiptið límónu, myntulaufum, hrásykri, rommi og ástaraldinum niður í tvö glös og merjið allt saman. Setjið mulinn klaka í glösin, allt upp að brún og hrærið vel í. Passið að ávextirnir liggi ekki á botninum í glasinu. Fyllið upp með sódavatni og skreytið drykkinn með myntulaufum og ástaraldinbitum.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir