Í morgun bjó ég til appelsínu- og gulrótarsafa. Þessi safi er yfirfullur af hollustu og vítamínum, hentar því afskaplega vel að byrja daginn á einu glasi af góðum og hollum safa. Það tekur enga stund að búa til safa, minnsta málið í eldhúsinu. Mér finnst voða gott að hefja daginn og þá sérstaklega mánudaga eftir smá helgarsukk á hollum og góðum morgunmat, þá gegnir safinn lykilhlutverki.
Ég bý til safa sem dugar í nokkur glös og endist mér út daginn.
Appelsínu- og gulrótarsafi.
500 ml ískalt vatn
5 meðalstórar gulrætur
2 meðalstórar appelsínur
1 sítróna
4 – 5 cm ferskt engifer.
1. Byrjið á því að flysja og skera hráefnið.
2. Setjið vatn í blandarann, 500 ml ískalt vatn.
3. Bætið hráefninu saman við vatnið í pörtum, ég læt fyrst gulræturnar og leyfi þeim að hakkast algjörlega áður en ég læt hitt hráefnið saman við.
4. Ég sía safann minn í gegnum sigti áður en ég drekk hann, þið ráðið því auðvitað hvort þið viljið sía hann eður ei.
5. Hellið safanum í glas og njótið.
Einfalt ekki satt?
Jæja, nú ætla ég að koma mér af stað út í vikuna… verkefnin bíða. Ég vona að þið eigið góða viku framundan kæru vinir. Við heyrumst fljótlega.
xxx
Eva Laufey Kjaran.