Amerískar súkkulaðibitakökur

 Amerískar súkkulaðibitakökur eru í miklu eftirlæti hjá mér og baka ég þær mjög oft, ég reyni að betrumbæta uppskriftina mína í hvert sinn og ég er svei mér þá viss um að þessar kökur séu þær bestu sem ég hef bakað. Þær komast mjög nálægt því að vera jafn mjúkar og subway kökurnar góðu, ég miða oft við þær kökur vegna þess mér finnst þær svo svakalega góðar. 
Það er bæði afskaplega fljótlegt og þægilegt að baka þessar kökur, ég tvöfalda oftast þessa uppskrift og rúlla helminginum af deiginu í plastfilmu og læt inn í frysti. Þegar ég á von á góðum gestum þá er svo gott að eiga deig í frystinum til þess að taka út, skera í litla bita og setja inn í ofn í smá stund. Það er svo gott að eiga eitthvað heimalagað með kaffinu 🙂 
Amerískar súkkulaðibitakökur með hvítu-og dökku súkkulaði
20 – 22 kökur

2 egg 
230 g smjör
400 g sykur 
3 tsk vanillusykur
320 g hveiti 
1 tsk lyftiduft
salt á hnífsoddi
1 tsk matarsódi
150 g hvítt súkkulaði, smátt saxað (eða hnappar)
150 g dökkt súkkulaði, smátt saxað (eða hnappar)
Aðferð: 
Hitið ofninn í 180°C
 1. Hrærið saman smjöri, sykri, eggjum og vanillusykri í nokkrar mínútur, eða þar til blandan verður ljós og létt. ( 4 – 5 mínútur)
 2. Blandið þurrefnum saman í skál og blandið við eggjablönduna, hrærið vel saman í nokkrar mínútur. 
 3. Bætið ljúffengu súkkulaði saman við blönduna, sjáið hvað súkkulaði er mikið augnayndi!
 4. Blandið súkkulaðinu varlega saman með sleif. Það er líka mjög gott að bæta við hnetum já og þurrkuðum ávöxtum, prófið ykkur áfram. 
 Skiptið deiginu upp í jafn stórar kúlur, ég notaði stóra ísskeið til þess að móta kúlurnar.
 Bakið þær í 10 – 12 mínútur við 180°C. 
 Leyfið kökunum að kólna mjög vel áður en þið berið þær fram. Það er voða gott að bræða smá súkkulaði og dreifa aðeins yfir kökurnar. 
 Kökurnar eru auðvitað bestar nýbakaðar og það er eiginlega algjör nauðsyn að drekka ískalda mjólk með. 

Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift kæru vinir. Ef þið ætlið í ferðalag í vikunni þá er upplagt að hafa þessar með í ferðatöskunni, alltaf gott að grípa í góða köku. Það bæði hressir og kætir, svei mér þá ef það er ekki smá töframáttur í góðum kökum. Allt verður örlitið betra við hvern bita.. Ég vona að þið hafið það svakalega gott og að þessi vika verði ykkur góð. Njótið þess að vera til. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)