Amerískar pönnukökur

Það er ekkert betra en að sofa út um helgar og byrja síðan daginn á ljúffengum morgunmat. Morgunkúrið um helgar hefur aldrei verið betra eftir að dóttir mín fæddist, það er svo gaman að vakna með skælbrosandi barninu sínu í morgunsárið. Það er besta leiðin til þess að byrja daginn að vísu – pönnukökuátið er í öðru sæti. 
Þessi uppskrift er mjög einföld og því lítið mál að hræra í nokkrar pönnukökur, þannig á það líka að vera þegar maður er nývaknaður. Berið pönnukökurnar fram með ferskum berjum og góðu sírópi.
Njótið vel. 
 Amerískar pönnukökur

  • 5 dl. hveiti 
  • 3 tsk. lyftiduft
  • 1/2 tsk. salt 
  • 1 Egg
  • 3 dl. AB mjólk (súrmjólk) 
  • 2 -3  dl. mjólk 
  • 3 msk. smjör (brætt) 
  • 1 tsk. vanilla extract eða vanillusykur
  • 1 msk. sykur 
Aðferð:
1. Sigtið saman hveiti, lyftiduft og salt. 
2. Bræðið smjör, leggið til hliðar og kælið.
3. Pískið eitt egg og mjólk saman. 
4. Næsta skref er að blanda öllum hráefnum saman í skál með sleif, ég blanda sykrinum saman við í lokin. 
5. Leyfið deiginu að standa í 30 – 60 mínútur áður en þið steikið pönnukökurnar. (þess þarf ekki en mér finnst þær verða betri ef deigið fær að standa í svolitla stund)
6. Hitið smá smjör á pönnukökupönnu og steikið pönnukökurnar í ca. mínútu eða tvær á hvorri hlið. Þær eru tilbúnar þegar þær eru gullinbrúnar. 
Þetta er frábær grunnuppskrift að pönnukökum en stundum bæti ég eplum, bláberjum, bönunum eða súkkulaðispænum út í deigið. Prófið ykkur áfram með það hráefni sem ykkur finnst gott… pönnukökur eru einfaldlega ljúffengar!

 Upp með svunturnar kæru vinir og prófið þessa uppskrift. Ég þori að lofa að þið eigið eftir að gera þessa uppskrift aftur og aftur. Uppskriftin er afar einföld og pönnukökurnar eru silkimjúkar og bragðgóðar. 
Njótið dagsins. 
xxx
Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *