Ég var svo heppin að vera dómari í smákökusamkeppni Kornax og Gestgjafans sem haldin var í október síðastliðinn. Það bárust 160 uppskriftir og sýnishorn af þeim til keppninnar. Það var ekki auðvelt að velja fyrstu sætin því það voru svo margar ljúffengar kökur. Ég er mjög ánægð með kökurnar sem eru í efstu sætunum og ég mæli með að þið nælið ykkur í glæsilegt kökublað Gestgjafans og prófið þessar uppskriftir. Nú er sko tími til að prófa nýjar sortir og byrja að baka.
Ég er byrjuð að baka fyrir jólin, er búin að baka þrjár sortir og hlakka til að deila með ykkur uppskriftum að ljúffengum jólasmákökum á næstu dögum. Þessi rjómaostakaka sem þið sjáið á myndinni hér fyrir ofan er án efa uppáhalds kakan mín í ár, hún er alltof góð og ég segi það vegna þess að ég get ómögulega hætt að næla mér í eina og eina.
Efstu sætin. Þessar kökur eru algjört sælgæti.
Ég er afskaplega hrifin af bökkum og mér finnst þessi handgerði viðarbakki mjög fínn undir matreiðslublöðin mín og kertin… og blómin. Mæli með að þið skoðið úrvalið hjá Snúrunni, þar finnið þið ótrúlega fallegar vörur.
Hér má sjá brot af kökunum, ójá þetta var sko smákökukeppni í lagi.
Hér erum við dómararnir mjög södd og sæl eftir allt kökuátið. Með mér í dómnefnd voru Albert Eiríksson, Sigríður Bragadóttir og Auðjón Guðmundsson. Það var afskaplega gaman að taka þátt í að velja bestu jólasmákökuna.
xxx
Eva Laufey K. Hermannsdóttir