Ég elska, elska, elska amerískar pönnukökur með allskyns góðgæti og þessar einföldu pönnukökur með Nutella eru algjört sælgæti. Ég bakaði þessar í gær, jájá konur sem eru komnar 38 vikur á leið þurfa ekki að afsaka pönnukökubakstur í virkum dögum 😉 Ég fékk allt í einu löngun í pönnukökur og var ekki lengi að skella í þessar enda er uppskriftin afar einföld og fljótleg… sem er alltaf plús og ég verð að mæla með að þið prófið þessar sem allra fyrst.
Nutella pönnukökur
- 260 g hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- salt á hnífsoddi
- 3 msk sykur
- 2 tsk vanilla
- 2 egg
- 4 msk smjör, brætt
- 250 ml mjólk
- Nutella, magn eftir smekk
Aðferð:
- Blandið þurrefnum saman í skál.
- Pískið eggin saman við mjólk og vanilludropa.
- Bræðið smjör á pönnu og blandið saman við þurrefnin ásamt mjólkinni og vanillu.
- Hrærið vel í deiginu þar til það er orðið silkimjúkt.
- Hitið smá smjör á pönnu og setjið góða skeið af deigi á pönnuna, setjið því næst smávegis af Nutella ofan á og svo aðeins meira deig yfir.
- Steikið pönnukökuna í ca.mínútu á hvorri hlið eða þar til hún er orðin gullinbrún.
- Berið strax fram með smjöri, Nutella, ferskum berjum og smá sírópi.. jájá allt er nú leyfilegt á laugardögum.
Njótið vel og góða helgi.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.