Stökkar Berlínarbollur með jarðarberjasultu

Í síðasta þætti var sérstakt bolluþema í Matargleðinni en það styttist óðum í bolludaginn sem í mínum bókum er einn besti dagur ársins. Í þættinum fór ég yfir fjórar bollu uppskriftir og ein af þeim var að sjálfsögðu stökkar berlínarbollur með jarðarberjasultu, það er eitthvað við þessar bollur sem ég fæ ekki nóg af. Hvílíkt lostæti, ég hafði þær fremur smáar sem er enn skemmtilegra. Ég mæli með að þið prófið þessar um helgina, best er auðvitað njóta þeirra strax á meðan þær eru enn heitar.

 

Berlínarbollur með jarðarberjasultu

14 – 16 litlar bollur
 • 80 smjör, brætt
 • 1 dl mjólk
 • 2 egg, léttpískuð
 • 300 g hveiti
 • 2 tsk þurrger
 • 1 tsk lyftiduft
 • ½ tsk salt
 • 1 tsk sykur
 • 1 tsk vanillysykur
 • Jarðarberjasulta
 • Ljós olía sem má djúpsteika
 • Sykur, til þess að velta bollunum upp úr

 

Aðferð:
 1. Bræðið 80 grömm af smjöri við vægan hita, takið pottinn af hellunni og bætið mjólk, sykri  og þurrgeri saman við þegar blandan hefur kólnað. Um leið og það byrjar freyða í skálinni er gerblandan tilbúin.
 2. Setjið þurrefnin saman í hrærivélaskál og blandið, hellið vökvanum saman við hægt og rólega. Hnoðið í 6 – 7 mínútur, ef deigið er of klístrað bætið þið við smávegis af hveiti.
 3. Setjið hveiti á borð og hnoðið örlítið með höndum og mótið kúlu.
 4. Færið deigið yfir í skál, setjið viskastykki yfir og látið hefast á heitum stað í rúmlega klukkustund eða þar til deigið hefur tvöfaldast að stærð.
 5. Stráið hveiti á borðflöt og fletjið deigið út, gott er að miða við að deigið sé 1 – 2 cm þykkt.
 6. Skerið kökurnar út með glasi t.d. kampavínsglasi. Bleytið helminginn af kökunum með eggi, teygið þær aðeins og setjið eina teskeið af sultu á deigið.
 7. Setjið tvær kökur saman og klemmið kanntana vel saman. Setjið á pappírsklædda ofnplötu í 30 mínútur og leyfið bollunum að hefast.
 8. Hitið olíu í rúmgóðum potti, þegar olían er tilbúin steikið þið bollurnar í 3 – 4 mínútur, passið að steikja þær á báðum hliðum og færið síðan yfir í skál og veltið upp úr sykri.
Missið ekki af Matargleðinni öll fimmtudagskvöld klukkan 19:25 á Stöð 2.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *