Pönnukökur með bláberjum.

Klukkan fjögur ákvað ég nú að gera vel við mig í kaffitímanum, átti ég að hlaupa út í bakarí eða drífa mig í að henda í nokkrar pönnukökur? Ég var ekki lengi að ákveða mig, þessar pönnukökur er þrælgóðar og fljótlegar. Ég er alltaf að reyna að krydda svolítið upp á þær því þær eru vissulega hollari en „venjulegar“ pönnukökur og þá er bragðið ekki það sama. En mér finnst þær góðar og í dag þá prufaði ég að útbúa smá bláberjamauk í stað þess að nota síróp, eða við skulum bara kalla það bláberjasíróp. Það hljómar ágætlega.
En hér kemur uppskriftin af einföldum pönnukökum og bláberjasírópinu einfalda, ég notaði sérlega mikið á mínar pönnsur vegna þess að ég er svo hrikalega skotin í bláberjum.
Pönnukökur:
  • 100 gr. Haframjöl
  • 150 gr. Létt AB-mjólk
  • 2 msk. Fínmalað speltmjöl
  • 2 msk. Kókos olía
  • 1/2 tsk. Lyftiduft
  • 1 1/2 – 2 tsk. Kanill
  • 1/2 tsk. Vanillu extract (Eða dropar)
  • 1 Egg
  • 1 tsk. Agave-síróp
Þessu eru öllu blandað vel saman í 2 – 3 mínútur í hrærivél.
Sírópið:
ca. 50  – 60 gr. Bláber (ég notaði í þetta skiptið frosin)
2 msk. Agave síróp
1/2 tsk. Kanill
1 1/2 msk. Rifinn sítrónubörkur
Ég byrjaði á því að skola vel bláberin vegna þess að þau voru frosin, lét svo allt saman í pott og sauð við vægan hita  í um það bil 5. mínútur og hrærði vel í á meðan þar til þetta var orðið að fallegu mauki.

Svo stráði ég nokkrum kókosflögum yfir.

Fallegar og fínar pönnsur, þær glöddu mig svo sannarlega.
xxx
Eva Laufey

Endilega deildu með vinum :)

2 comments

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *