Litlar ostakökur með hvítu súkkulaði og hindberjum

Ostakökur eru ákaflega bragðgóðar og fallegar á veisluborðið. Ég slæ aldrei hendinni á móti ostaköku og mér finnst mjög gaman að baka þær eða búa þær til, þær þurfa auðvitað ekki allar að vera bakaðar. Ég gerði þessar kökur fyrir babyshower sem við héldum handa vinkonu okkar fyrir stuttu. Íslensku hindberin eru auðvitað bæði ótrúlega góð og falleg, þess vegna fannst mér tilvalið að nota þau en þið getið vitaskuld notað hvaða ber sem þið viljið. Hér kemur uppskriftin að þessum ljúffengu kökum, ég vona að þið njótið vel.
Litlar ostakökur með hvítu súkkulaði og hindberjum
um það bil 16 – 18 kökur
Botn:
 • 250 g Lu Bastogne kex
 • 140 g smjör, við stofuhita
 • bollakökupappírsform 

 

Aðferð:
 1. Setjið kexið og smjörið í matvinnsluvél þar til
  það verður að mylsnu.
 2. Skiptið kexblöndunni niður í bollakökuform, hér
  um bil 1 ½ – 2 msk í hvert form. Það fer auðvitað eftir stærð formsins en mér
  finnst gott að botninn sé 1/3 af forminu.

 

Ostakökufyllingin:
 • 500 g hreinn rjómaostur frá MS (þessi í stóru og
  bláu pökkunum)
 • 1 dós sýrður rjómi frá MS
 • 2 dl flórsykur
 • 2 egg
 • 1 tsk vanilla
 • 150 g hvítt súkkulaði
 • 100 ml rjómi
 • 200 g frosin eða fersk hindber (ég hef bæði
  notað fersk og frosin og finn ekki mun)
 • þeyttur rjómi
 • fersk hindber

 

Aðferð:
 1. Hitið ofninn í
  180°C
 2. Byrjið á því að
  hræra rjómaostinn, það er gott að mýkja hann svolítið.
 3. Bætið sýrða
  rjómanum, flórsykrinum, eggjunum (einu í einu) og vanillu við og hrærið þar til
  ostablandan verður silkimjúk.
 4. Bræðið hvíta
  súkkulaðið í potti með rjómanum, leggið til hliðar og kælið.
 5. Hellið
  súkkulaðinu út í ostablöndunni.
 6. Í lokin bætið
  þið berjunum út í deigið og hrærið í smá stund.
 7. Skiptið
  ostablöndunni niður í bollakökuformin.
 8. Bakið
  ostakökurnar í miðjum ofni  við 180°C í
  25 – 30 mínútur.
 9. Kælið kökurnar áður
  en þið berið þær fram.
 10. Þeytið rjóma og
  sprautið ofan á hverja köku og skreytið með ferskum hindberjum.

 

Kökurnar eru algjört augnayndi.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *