Klassískar vanillubollakökur með silkimjúku súkkulaðikremi

 

Það eru ekki mörg ár síðan ég smakkaði bollakökur í fyrsta skipti. Ég var auðvitað búin að smakka jógúrtmuffins en bollakökur með miklu kremi og fallegu skrauti heilluðu mig upp úr skónum og það má með sanni segja að það hafi verið ást við fyrsta bita. Vanillubollakökur eru í miklu uppáhaldi hjá mér og skemmtilegast þykir mér hvað þær bjóða upp á marga möguleika. Það er hægt að leika sér með þessar kökur og bæta við því hráefni sem hverjum þykir gott t.d. súkkulaðibitum eða berjum.
 Klassískar vanillubollakökur með súkkulaðikremi
  • 250 g sykur
  • 140 g smjör, við stofuhita (mikilvægt)
  • 3 egg, við stofuhita (mikilvægt)
  • 250 g Kornax hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2 dl rjómi eða nýmjólk
  • 2 tsk vanilla extract eða vanillusykur (það er líka gott að nota fræin úr vanillustöng)
  • bollakökuform
Aðferð: Hitið ofninn í 180°C. Þeytið saman smjör og sykur í um það bil þrjár mínútur, bætið einu og einu eggi saman við. Þeytið vel á milli. Sigtið saman hveiti og lyftiduft, bætið hveitiblöndunni, vanillu og rjómanum saman við eggjablönduna og þeytið mjög vel í nokkrar mínútur þar til blandan verður silkimjúk. Skiptið deiginu niður í bollakökuform og bakið við 180°C í 15 – 18 mínútur. Kælið kökurnar mjög vel áður en þið smyrjið á þær krem. Uppskriftin gefur 18 – 20 bollakökur.
Súkkulaðikrem
  • 200 g smjör, við stofuhita (mikilvægt)
  • 400 g flórsykur
  • 130 g súkkulaði
  • 1 tsk vanilla extract eða vanillu sykur (Þið fáið vanillu extract t.d. í Hagkaup og Kosti)
Aðferð: Þeytið smjör og flórsykur saman í nokkrar mínútur, því lengur sem þið hrærið kremið því betri áferð verður á því. Bræðið dökkt súkkulaði yfir vatnsbaði og hellið súkkulaði saman við smjörkremið í mjórri bunu. Bætið einnig vanillu út í og þeytið enn betur í 2 – 3 mínútur. Setjið kremið í sprautupoka og skreytið kökurnar að vild. Það er afar gott að rífa niður smá súkkulaði og skreyta kökurnar með súkkulaðibitum.

 

 

Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

 

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *