Æðisleg gulrótarkaka með rjómaostakremi

 

Góð helgi að líða undir lok og mig langar að deila með ykkur uppskrift að gulrótarköku sem mamma bakaði svo oft þegar við vorum yngri. Ég elska góðar gulrótarkökur með miklu kremi, já miklu kremi segi ég og undirstrika mikilvægi þess að vera með gott krem. Rjómaostakrem er mitt uppáhald og það fór nóg af kremi á kökuna hjá mér fyrr í dag.
Helgin hefur verið fljót að líða og við fjölskyldan höfum haft það rosa gott hér heima fyrir, ég ætlaði að vísu að vera búin að sortera alla skápa í íbúðinni en hef ekki komist í það… ójæja, það kemur alltaf önnur helgi 😉 Miklu mikilvægara að eyða tímanum í bakstur og notalegheit. Ég vona að þið hafið haft það fínt um helgina, veðrið hefur verið dásamlegt og ekki yfir neinu að kvarta. Ég ætla að fara að huga að sunnudagsmatnum, fæ til mín góða gesti og það er þess vegna ekkert svo galið að byrja að elda. Hér fyrir neðan er uppskriftin að kökunni góðu sem ég vona að þið prófið og njótið vel.
Gulrótarkaka með ómótstæðilegu rjómaostakremi

Botnar:

4 egg
2 bollar púðursykur (eða 5 dl)
3 bollar rifnar gulrætur
1 lítil dós kurlaður ananas
2 bollar KORNAX hveiti (eða 5 dl)
2 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
1 tsk vanilla
1 1/2 bolli bragðdauf olía
1 1/2 Bolli matarolía (eða ca. 3,25 dl)

Aðferð:

1. Þeytið saman sykur og egg þar til blandan verður ljósbrún.
2. Rífið niður gulrætur og bætið þeim út í, hrærið í smá stund.
3. Bætið öðru hráefni saman við og hrærið í 2 – 3 mínútur eða þar til deigið hefur blandast vel saman.
4. Smyrjið tvö hringlaga form og skiptið deiginu jafnt í formin. Bakið við 180°C í 35 – 40 mínútur.

*Það er gott að stinga prjóni eða endanum á gaffal í kökuna eftir ca. 35 mínútur, ef kakan er enn blaut þarf hún aðeins lengri tíma.

*Kælið kökubotnana mjög vel áður en þið setjið á þá krem

 

 

Ómótstæðilegt rjómaostakrem

300 g smjör, við stofuhita
400 g hreinn rjómaostur frá MS, við stofuhita
500 g flórsykur
1 – 2 tsk vanilludropar eða sykur
1 tsk sítrónusafi
1 – 2 msk rjómi

Aðferð:

1. Þeytið smjör og rjómaost saman þar til blandan verður létt.
2. Bætið flórsykri og vanillu saman við og hrærið, bragðbætið með sítrónusafa og hellið rjómanum saman við í lokin og þeytið þar til kremið verður silkimjúkt.

Smyrjið kreminu á milli botnanna og þekjið svo kökuna með kreminu. Ristið gjarnan möndluflögur og skreytið.

 

 

 

 

 

 

Njótið vel og ég vona að þið eigið gott sunnudagskvöld framundan.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni sem notað var í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

 

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *