Æðisleg bleikja í teriyaki sósu með ristuðum sesamfræjum

 

Korter í kvöldmat er nýr liður á blogginu en í þessum færslum ætla ég að deila með ykkur einföldum og ofur góðum uppskriftum sem eiga það sameiginlegt að vera mjög fljótlegar. Fyrsti rétturinn sem ég ætla að deila með ykkur er ljúffeng bleikja í teriyaki sósu. Ég eldaði þennan rétt í síðustu viku, þá var ég í próflestri og hafði ekki langan tíma til þess að stússast í matargerðinni. Það kannast eflaust flestir við að lenda einhvern tímann í tímaþröng um kvöldmatarleytið og það þarf ekki endilega að koma niður á gæði matarins, við þurfum bara að velja fljótlega og einfalda rétti og þessi er einn af þeim.

 

Bleikja í Teriyaki sósu með ristuðum sesamfræjum

 

 

  • Einföld matargerð
  • Áætlaður tími frá byrjun til enda: 15 mínútur
  • Fyrir 2

 

 


Hráefni:
  • 2 flök Klaustursbleikja
  • 1 msk ólífuolía + 1 tsk smjör
  • Salt og pipar
  • 4 – 5 msk Teriyaki sósa
  • 1 stilkur vorlaukur
  • 2 – 3 msk hreinn fetaostur frá MS
  • Ristuð sesamfræ

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.
  2. Hitið olíu og smjör á pönnu, steikið bleikjuna með roðið niður í 2-3 mínútur. Kryddið til með salti og pipar.
  3. Penslið fiskinn með Teriyaki sósu, ca. 1 – 2 msk á hvert bleikjuflak.
  4. Setjið bleikjuflakið í eldfast mót, sáldrið hreinum fetaosti yfir flakið og bakið við 180°C í 5-7 mínútur.
  5. Þegar fiskurinn kemur út úr ofninum dreifið þá ristuðum sesamfræjum yfir hann og myljið niður meiri fetaost. Einnig er gott að saxa niður vorlauk og dreifa yfir fiskinn.
  6. Berið bleikjuna fram með fersku salati – einfalt og gott!
Njótið vel og ég vona að þið eigið stórgóða viku framundan.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni sem eru notuð í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *